<$BlogRSDUrl$>

22. júní 2004

NÝ OFURHETJA!Snilldarsíðan www.engrish.com bíður upp á fleiri misheppaðar tilraunir til enskuþýðinga í austurlöndum fjær - how do you go?

P.S. Síðari hluti ferðasögunnar er á leiðinni. Vinsamlegast örvæntið eigi...

21. júní 2004

FERÐASAGANVegna fjölda áskorana ættingja og vina höfum við ákveðið að birta ferðasöguna frá því í Prag eins og hún kemur fyrir í skrifblokkinni okkar.

DAGUR 1 - Miðvikudagur 9.júní 2004

Vöknuðum árla kl. 4.45 og sturtan og sterkt kaffi fylgdu í kjölfarið. Eftir ca. klukkustundar ferðalag vorum við komin á Kastrup þar sem við máttum dúsa í 11/2 klukkustund. Þurftum að fara með rútu út að flugvél sem leit frekar út fyrir að vera að fljúga til Ísafjarðar en til Evrópuríkis. Þó var þetta stutt ferð, einn tími og 10 mínútur. Á Prag-flugvelli mætti okkur traktor til að pikka upp töskurnar. Eftir að hafa staðið dágóðan tíma meðal Rússa við vegabréfatékkið (allir aðrir fóru í gegnum EU-hliðið) tók við fyrsta strætóferð ferðarinnar með strætó nr.119. Strætóbílstjórinn var mjög austantjaldslegur og virtist vel falinn bakvið e-ð sem líktist skotheldu gleri. Eftir strætó var það neðanjarðarlestarferð til áfangastaðarins - miðborgar Prag.

Travellershostelið er í ca. 5 mín labbitúrafjarlægð frá Gamla torginu og þrátt fyrir súra aðkomu kom herbergið okkar skemmtilega á óvart; staðsett hinumegin við svefnsali (dorm) / "farfugla"herbergin og því laust við skarkala sem fylgir þeim heimi. Herbergið var snyrtilegt, nýuppgert með sérsturtu og sameiginlegu eldhúsi og klósettum sem einnig voru nýuppgerð og snyrtileg. Gátum ekki tékkað okkur inn fyrr en á hádegi svo það kallaði á okkar fyrsta Pivo (tékkn: Bjór) á stað sem kallast Pasta Fresca, ca. 3 byggingum frá hostelinu. Eftir tékk-inn voru sveittir stigarnir teknir upp á þriðju hæð (lyftan haggaðist ekki, líklegast ryðguð föst m.v. útlitið á henni).

Eftir stutt púst löbbuðum við niður á torg að skoða mannlífið. Tókum nokkrar litlar götur troðnar af túristum og komum loks að "Charles" brú eða gömlu brúnni, styttum skreytta sem var ótrúlega flott í 27 stiga hita og sól. Kíktum aðeins yfir brúna og skoðuðum m.a. John Lennon-vegginn sem virðist frekar "hæpaður" miðað við hughrif. Síðan tók að rigna og fyrstu þrumur dagsins beljuðu yfir okkur. Ákváðum að skella okkur heim og taka okkur örstuttan lúr fyrir kvöldverð. Eftir lúr og dálitla leit að góðum stað fundum við Mex-staðinn Mama Lucy rétt við Gamla torgið. Fínn matur og við sátt.

Þegar kvöldaði ákváðum við að skipta um flíkur og þegar við komum út aftur byrjaði eitt svakalegasta þrumuveður í okkar minnum. Eldingum ljóst bókstaflega yfir hausamótunum á okkur og fljótlega kom steypiregn svo við leituðum skjóls á Urqell Restaurace (já, restaurace) þar sem sveittur gaur með stóra hormottu afgreiddi freyðandi Pivo handa okkur. Eftir að þrumuveðrinu slotaði röltum við á nokkra bari bæjarins og fljótlega vorum við orðin þreytt. Tókum engu að síður lokabjór á Hostel-pöbbnum og lögðumst svo til hvílu eftir annasaman dag...

DAGUR 2 - Fimmtudagur 10.júní 2004

Vöknuðum kl. 7.00 af því okkur var svo mál - ákváðum að sofa aðeins lengur. Tékkuðum á morgunmatnum hér á Hostelinu upp úr 9.00 - þar var í boði bollur, ostur, skinka, sulta, jógúrt, múslí og vont kaffi - slepptum kaffinu. Skoðuðum nútímabygginguna Dancing Building sem var nokk merkileg. Tékkuðum á National Theatre og fórum í sporvagni í verslunarmiðstöðina TESCO og þaðan með Metro á National Museum, sem var falleg bygging að innan og utan en annars frekar mikið geisp.

Ákváðum að fara að ráðum Lonely Planet-bókarinnar á leiðinni heim á hostelið. Sáum m.a. þá flottu götu - Wenceslas Square og æðislega fallega og vel falda kirkju, Church of our lady of the snow (betra að hafa þetta á ensku en tékknesku). Fengum okkur mat á grænmetisstaðnum Country Life - ódýrt og gott! Keyptum svo jarðaber á markaðnum þar skammt frá og héldum heim á hostelið og hvíldum okkur í klukkutíma eða svo.

Röltum svo út á Námestí Republiky. Fundum Fridays þar sem við fengum okkur "dýra" en góða kokteila (um 500 krónur ísl.glasið) Maturinn var góður sem og þjónustan. Vorum alveg að springa úr seddu eftir þetta alltsaman. Skelltum okkur í kvöldgöngu og lentum í einskonar "rauðu" hverfi með klámbúllum og vafasömum karakterum - drifum okkur bara heim. Tókum lokabjór á hostelbarnum og skelltum okkur svo í bólið...

DAGUR 3 - Föstudagur 11.júní 2004

Halli orðinn veikur! Týpískt! Jæja, byrjuðum daginn á að kaupa veikindavörur í apótekum og svokölluðum Farmacies. Svo var tekið kaffi og vítamíndrykkur á Pasta Fresca og lagt á ráðin um plan dagsins. Ákváðum að ganga leið sem okkar ágæta Lonely Planet-bók benti á. Byrjuðum á að skoða súrrealísk og frekar óhugguleg málverk eftir e-n Rússa á Gallery of Surrealism. Héldum svo framhjá ótal sýnagógum, en þar sem þær voru flestar troðnar af túristum ákváðum við að bíða með allt gyðingatengt þar til síðar og röltum þetta bara í rólegheitum.

Sáum m.a. flott tónleikahús, Rudolfinum. Síðan villtumst við á leiðinni að St. Agnesar-klaustri en sáum margar fallegar (og ljótar) götur á leiðinni. Þar sem Halli var uppfullur af lasleika var ákveðið að taka hinn daglega lúr snemma. Kl. 18.00 var svo farið í matarleit. Rákumst á staðinn Buon Gusto í hliðargötu ekki langt frá hostelinu. Tveir réttir og bjór á 119 tékkneskar (ca. 300 kall ísl) á mann. Virkaði eins og staðurinn væri nýopnaður, þar sem þjónarnir tveir virkuðu hálfstressaðir - komust að því að þau hlytu að vera hjón. Maturinn einfaldur en góður.

Svo hófst pöbbarölt dauðans þar sem Pivo-inn kitlaði bragðlaukana, auk einstakra skota af Jägermeister fyrir veika manninn og innlendu brennivíni / snafs f. Ellu. Tókum allverulega á því á pöbbum eins og Repeate og Red Hot and Blues. Svo var endað (sem fyrr) á Hostelpöbbnum og m.a. rætt við kana og tvær norskar stelpur. Forboðni drykkurinn Absinth var smakkaður, sterkur og lakkrískenndur, en olli engum áhrifum öðrum en talsverðri þynnku daginn eftir sem fjallað verður um síðar...

DAGUR 4 - Laugardagur 12.júní 2004

Vöknuðum með mikla timburmenn kl. 11. Að auki var annað okkar nokkuð lasið. Fórum strax í bröns á Red Hot and Blues og fengum okkur egg og bacon, en matarlystin var hinsvegar takmörkuð. Ákváðum að labba þetta af okkur sem tókst með ágætum. Fórum yfir gömlu brúna og skoðuðum okkur um. Þar sem við vorum svo nálægt kastalanum ákváðum við að slá til. Löbbuðum upp um þúsund þrep með tilheyrandi stoppum vegna heilsuleysis og armæði. Dásamlegur kastalinn blasti við þegar upp var komið. Sátumst á bekk við torgið f. framan kastalann og hlustuðum á tvo fiðluleikara spila klassískar blöðrur - mjög rómantísk stund. Sáum verðina skipta en svo kom hellidemba og við flúðum inn hjá Information í ca. 5 mín þar til rigningunni slotaði. Kíktum inn í kirkjuna, löbbuðum Golden Lane með sætu litlu húsunum og nutum útsýnisins yfir borgina sem kastalinn hafði upp á að bjóða.

Eftir góðan göngutúr um kastalasvæðið löbbuðum við niður á næstu Metro-stöð með þessum líka löngu rúllustigum. Haldið heim á hostel. Eftir stutta hvíld var förinni heitið í stuttan hring niður á gamla torg og endað á pizzastaðnum Giallo Rossa en þeir bjóða líka upp á internet. Skelltum í okkur pizzum og einni Lambrusco á engan pening og skrifuðum póstkort þess á milli. Kíktum á netið eftir á og blogguðum aðeins. Strunsuðum svo upp á hostelherbergi í hlýrri föt, því það hafði kólnað talsvert í veðri. Förinni var svo heitið að gömlu brúnni, ansi rómantískt og fallegt. Eftir góða og fallega stund á brúnni fengum við okkur kokteila á "dýrum" hótelveitingastað (utandyra). Vorum samt bæði á því að fara snemma heim þar sem gærkvöldið var okkur enn í fersku minni. Því helltum við upp á caj (te) upp á hosteli og skelltum okkur í háttinn...

P.S. Nóttin var frekar súr - Ella búin að smitast af hálsbólgunni, Halli í svitakasti dauðans og "dúnka dúnka-ð" úr klúbbnum á neðstu hæðinni vakti okkur reglulega til 6 daginn eftir...

Framhald síðar!

17. júní 2004

BÖRNIN HEIM

Við erum komin heim. A.m.k. heim til Svíþjóðar í okkar kitru við Kämnärsvägen. Hugsa að ferðasagan verði rakin síðar þar sem ég þarf þá að hella upp á 10 bolla og setja mig í málfarslegar stellingar.

Ferðin heim gekk ekki slysalaust fyrir sig (eða jú, slysalaust, en ekki án hrakfalla). Eftir ferð með Metro og strætó meðal sveittra og fýlulegra Tékka vorum við komin tiltölulega snemma á flugvöllinn. Bara til að komast að því að fluginu okkar var aflýst. Ekki frestað, aflýst - engar skýringar af hverju. Nú upphófst svona hasar eins og maður sér í veruleikaþáttunum um flugvöllinn í Englandi sem ég man ekki hvað heitir, okkur var vísað á Lufthansa-skrifstofu þar sem við settum okkur í rifrildisgírinn. Eftir mikinn hamagang og stress var okkar málum komið í hendurnar á gamalli konu með talstöð sem hljóp reglulega eitthvert og bað okkur um að bíða. Hún reddaði okkur á endanum tengiflugi til Frankfurt og þaðan til Köben. Frankfurt-flugvélin átti að fara eftir 15 mín. þegar við fengum að vita þetta svo við fengum aðra konu með talstöð til að taka með okkur 800 metra spretthlaup/útsýnistúr um Prag-flugvöll. Luft-Hansi flutti okkur til Frankfurt-flugvallar, sem er ofurvaxinn og illyfirstíganlegur. Þurftum að ganga hátt í kílómeter, þ.á.m. í gegnum undarleg göng - þau lengstu sem við höfum farið í og í hátalakerfinu hljómuðu náttúruhljóð, fuglar að gala og vatnsniður, lýsingin var frekar lítil og undarlegur ilmur. Sáum fyrir okkur að þýskir Cheech og Chong væru þarna að fremja e-a hippatilraun til að róa fólk niður þannig að það slappaði af og missti þannig af fluginu sínu. Svo var það bara vélin til Köben. Vorum ótrúlega snögg í gegnum Kastrup, held það sé nýtt met í flugstöðvarspretti með töskugripi, eða um 10 mín. Náðum í kjölfarið öllum lestum og vorum komin heim rétt eftir miðnætti.

Svo nú er það bara nett ferðaþynnka í gangi, 17.júní og svoleiðis. Fer ekki mikið fyrir þessum degi hér, maður bara drekkur kaffi og horfir út um gluggann, engir fánar eða helíumblöðrur. Enginn með hatta og kandíflos. Ekkert hæhó og ekkert jibbíjei. Gæti ímyndað mér að nokkrir kokhraustir félagar hins svokallaða Íslendingafélags í Lundi sitji niðrá torgi með ís og heimagerðar blöðrur - eða gangi í halarófu um miðbæinn með íslenskan pappafána öskrandi "hæhó, jibbíjei og jibbíjei", öðrum Lundabúum til mikillar skelfingar. Við ættum kannski að tékka á því á eftir, hmmm....

Jæja, nóg í bili,
Halli

12. júní 2004

HALLI OG ELLA I UTLONDUM ... I UTLONDUM

Erum komin inn a fjorda dag i Prag. Pontudum pizzu og hvitvin og fengum internet adgang i 30 min. Hefur gengid vel hingad til f.utan ad eg nadi mer i einhverja pest og er thvi slappur. Ekkert sem gengdarlaus bjordrykkja getur ekki lagad. Travellers Hostel er stadsett ca. 5 min fra gamla torginu, erum semsagt i midjum turistapakkanum. Hostelid huggulegt en frekar sveitt ad utan. Vedrid hefur verid med eindaemum gott thratt fyrir allsvakalegt thrumuvedur her fyrsta kvoldid. Bjorinn er naestum thvi gefins og ekki dyrt ad borda uti. Erum buin ad taka turistapakkann naestum allan, brunna og kastalann, gamlar gotur og annad gott og flott. Prag er otrulega falleg ef fra eru taldir fullir Englendingar i steggjapartyum. Ella er ordin sleip i tungumalinu - caj og káva og voda. Ansi skemmtilegt bara. jaeja, pivoinn kallar...

Bidjum ad heilsa heim,
Halli og Ella

8. júní 2004

pirr.is
Spá í að fá mér lénið pirr.is og pirra mig þar yfir hinum ýmsu hlutum sem hægt er að pirra sig á...gera pirr að mögnuðum bransa...verða pirrdrottning íslands og græða fullt af pening...bara svona professional-pirr...veit það samt ekki. Held að nágranninn sé orðin fullkomlega geðveikur búin að vera á garginu í allt gærkvöld og aftur núna í morgun...frekar pirrandi

7. júní 2004

Jæja
Veit ekki afhverju ég er að skrifa þetta...er einhver að lesa bloggið? Comment please!! Ég verð nú samt að skrifa pirr dagsins bara svo að Halli fái smá breik frá pirri. Förum til Prag á miðvikudaginn 9, gaman, gaman. Komum heim þann 16...

Pirr dagsins:
Fullir Svíar sem finnst fyndið að stela grillum úr görðum hjá fólki...arg. Fann það nú samt aftur,,,en graslaukurinn sem ég var að rækta í potti út í garði er týndur og tröllum gefinn. Sniðugt og mjög nauðsynlegt að stela graslauk þar sem það er hægt að fá mikið fyrir hann á svarta markaðnum. Fillerí dauðans á um síðustu helgi þar sem skólanum er officially lokið. (Bara ég sem er í sumarnámi, arg, pirr líka) Fullir svíar eru pirr, pirr, pirr...ef einhver finnur graslauk i krukku má hann/hún skila honum til mín...

Lag dagsins:
Heartbeats með The Knife...algjör snilld!!!

2. júní 2004

MIÐVIKUDAGSMESSA

Annar dagur júnímánaðar, sólin skín og allir í ferlega góðu skapi. Var að byrja "í vinnunni" í dag og gengur bara bærilega. Hef þó tíma til að hripa niður smá blogg þar sem langt er síðan síðast.

Ekki mikið að frétta. Rosa skemmtilegt partý hérna á laugardagskvöld. Nýtt met sett í gestafjölda, samtals 13 manns í kofanum þegar mest var. Geðsjúklingurinn nágranni okkar var greinilega fjarverandi um helgina þar sem við heyrðum engar upphrópanir og æðibunugang. Sunnudagurinn var þynnkudagur mikill og við bæði hálfslöpp eftir magnað djammið kvöldið áður. Svo kom sólin og maður búinn að sitja úti og sóla sig annað slagið. Fótboltinn orðinn vikulegur atburður og alltaf við hæfi að bæta upp tapaðar kaloríur með pizzu á eftir. Vorum einmitt að spila í gær og Ella setti tvö mörk. Allt að koma!

Á tíðum flettingum okkar í gegnum sjónvarpsstöðvarnar rákumst við á furðulega teiknimynd á MTV í gær. Fjallaði um ævintýri sæsvampsins Spoungebob Squarepants og var vægast sagt súr. Spoungebob býr ásamt gæludýrasniglinum sínum í ananas á botni Kyrrahafsins, á svæði sem heitir Bikini Bottom. Hann á í stöðugum erjum við nágranna sinn Squidward og lendir í ýmsum ævintýrum með vini sínum, krossfisknum Patrick. Mæli með að fólk tékki á þessum ágæta svampi.

Framundan er nokk bissí helgi. Erum að fara til Köben á föstudaginn að hitta Kára litla frænda hennar Ellu og kíkja í heimsókn til Birnu frænku hennar. Múm er að spila á fimmtudaginn á KB í Malmö en óráðið hvort við förum. Svo er það náttúrlega Prag eftir rétta viku. Verður líklegast massa skemmtilegt, ætlum ekkert að stressa okkur á ferðaplönum, bara hafa það huggulegt og spila þetta eftir eyranu. Væri ekki frí annars.

Jæja, nóg í bili
Halli

[Bætt við eftir blaðamannafund ÓRG] P.S. Forseti Íslands fær sjö þúsund rokkstig fyrir besta íslenska kosningatrix allra tíma. Þjóðaratkvæðagreiðsla var það heillin! Velkominn á söguspjöldin, Óli okkar Grís...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?