<$BlogRSDUrl$>

27. mars 2004

KORT

Var að uppgötva að veskið mitt er að springa. Ónei, ekki vegna þess að ég er stúdent á fullum og ríkulegum námslánum frá Lánasjóði Íslenskra námsmanna (kunniði annan?) heldur er ég búinn að komast að því að Svíar eru gjörsamlega kortaóðir. Ekki kannski í þeim skilningi að þeir borgi allt með Visa og debetkortum - nei, þvert í móti fara þeir frekar í hraðbanka - það eru allskonar önnur kort sem þú þarft að bera á þér til að komast af í þessum harða sænska veruleika. Til þess að draga upp mynd af þessu ætla ég barasta að telja upp kortin í veskinu mínu (veskið mitt er svona debetkortaveski):

Íslensk kort:
1 stk. Debetkort frá Búnaðarbankanum (sem heitir núna KB Borgarnesi)
1 stk. Atlas Eurocard (nýbúinn að fá nýtt)
1 stk. Ökuskírteini með draugamynd sem var einu sinni af mér
Sænsk kort:
1 stk. SkandiaBanken-hraðbankakort (sem ég nota aldrei)
1 stk. Afsláttarkort í IKEA
1 stk. Símaklefakort (með 50 króna inneign)
1 stk. Studentkortet - afsláttarkort og sönnun á því að ég er í raun stúdent á gamals aldri
1 stk. Mecenat-kort - þjónar sama tilgangi og Studentkortet
1 stk. Bókasafnskort (sem gildir í öll bókasöfn innan Lunds Universitet)
1 stk. Aðgangskort í Malmö Musikhögskola - notar það til að komast inn í skólann
1 stk. Aðgangskort í stúdíóið í MMH
1 stk. Meðlimsskírteini í Club Metro
1 stk. Meðlimsskírteini í Blekingska Nation - nauðsynlegt til að komast inn á stúdentapöbbana um helgar

Samtals 13 kort!

Ekki furða að maður sé hálftíma að finna rétta kortið...

Góða helgi,
Halli

P.S. Rakst á athyglisverða frétt um daginn...

25. mars 2004

Á FIMMTUDEGI

Nýkominn úr borginni. Í Malmö er fínt að vera, svolítil sveitastemmning miðað við stórborg og minnir svolítið á Kópavoginn (f.utan Hamraborgina sem er einstök í heiminum). Þetta með að semja fyrir hljómsveit getur verið svolítið þreytandi, sérstaklega þegar kemur að vinnunni að skrifa út raddir fyrir öll hljóðfæri með tilheyrandi yfirferðum, útprentunum og ljósritunum. En hei, sei la ví.

Nú flykkjast af einhverjum ástæðum fleiri tugir listamanna til Íslands til að syngja og tralla fyrir Frónverja. Öllu er nú ofaukið og ég er ansi hræddur um að eitthvað af þessu eigi eftir að verða illa sótt (nema góðæri Íslendinga og Davíðs sé enn við lýði og rassvasar fullir af fimmþúsundköllum). Kraftwerk, Pixies, Korn, Fantomas, Sugarbabes, Violent Femmes, Deep Purple, Pink og eflaust fleiri fljúga spes út á mitt Atlantshaf til að fara í Bláa Lónið og skoða næturlífið. Og jú, syngja og tralla fyrir pening. Mjög gaman að Ísland fái loksins að vera með í þessum tónleikaferðalögum stjarnanna.

Hérna megin Atlantshafsins er þó lítið um að vera í tónlistarlífinu. Júróteknó-mógúllinn E-Type var næstum búinn að vinna Júróvisjón forkeppnina og segir það allt sem segja þarf. Svíarnir eru mjög uppteknir af svokölluðum Schlagerlåtar (slögurum), þ.e. uppþemdum poppblöðrum sem allir kannast við (úr öðrum lögum). Poppararnir í Kent eru í fríi og LOK-pönkararnir hættir. Eini maðurinn með viti þessa stundina er José Gonzales sem spilar einn á klassískan gítar.

Svíarnir eru núna búnir að vera að keyra svona Til-hjálpar-einhverjum stórkonserta núna undanfarið og hafa nokkrir stórir listamenn safnað saman smáaurum til bjargar hungruðum Heimi. Hitti Heimi í gær og hann var pakksaddur. (But seriously folks...) Það er ákveðinn tvískinnungur í því að listamenn gefi vinnu sína á svona styrktartónleikum. Extón fær borgað fyrir ljósin og kerfið, ljósamaðurinn fær greitt, mixermaðurinn tekur 50 þús, húsnæðið kostar 100 þúsund per dag, bílstjórinn sem keyrir græjurnar tekur sinn hlut. Eftir stendur að einu sem gefa vinnu sína eru listamennirnir, þeir einu sem virkilega þurfa á peningunum að halda. Takið eftir, listamenn þjóðarinnar! Ef einhver kemur og biður ykkur um að vera með á Gator Aid, til styrktar hungruðum krókódílaungum í Ástralíu, þá spyrjið hvað ofantaldir aðilar fá greitt fyrir sama gigg.....

Lag dagsins er frískt og ástralskt, Cold Heart Bitch m. Jet. Bezt að morgni til í góðum græjum.

Kv,
Halli

22. mars 2004

JÚRÓJÓNSI

Þá er maður búinn að berja eyrum íslenzka júróvision lagið Heaven í flutningi Jónsa Svarta. Nett lélegt, ekkert grípandi og okkar annars ágæti Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson rembist eins og útsetningar-rjúpan við ProTools-staurinn að snyrta þetta upp í svona meðal(júróvisjón)lag með einstaklega slælegum árangri svo úr verður eitthvað Todmobile-moð, enda erfitt að fá eitthvað úr engu. Jónsi greyið hefur lítið að gera framanaf og hálfleiðist á meðan lagið silast áfram, tekur aðeins á því í bláendann og ætti frekar bara að sleppa því. Syngur eitthvað sem hljómar eins og "soldiers" og það er bara hreinlega hlægilegt. Bæði byrjun og endir er úr lausu lofti gripinn, lagið byrjar spennandi í moll og brestur svo á með dísætum dúr svo maður fær íllt í fyllingarnar. Endirinn er svo bara svona "jæja, nú eru þrjár mínútur liðnar, best að hætta þessu..." - Það er greinilegt að RÚV er ekkert að nenna að standa í þessu Júróvision-rugli, þetta er bara alltof dýrt. Bregða bara á það ráð að senda eitthvað lag sem þeir fundu á kassettu. Ísland hefur ekki hljómað svona síðan söng Núna með illum en ástefndum árangri. Því er ljóst að Íslendingar eiga Rúvurum það að þakka að kæfa orðstýr um frumlega huxun og lagasmíð á Íslandi að allri Evrópu aðsjáandi. Ísland úr Júró, stefið burt....

Með orðunum "This song is a suck"....

Lag dagsins: La´det svinga með BobbySucks - þær kunnu sko að tralla!

Kv,
Haraldur

P.S. Ef það huggar eitthvað þá eru svíar að senda álíka vonlaust lag með einhverri hálffertugri konu sem stólar meira á stuttan kjól en alvöru gól...

20. mars 2004

MUNIÐI EFTIR ÞESSU STEFI?

Fyrir þá sem eru með hátalara við tölvuna sína - blastið þessu!!!

Hið víðfræga Derrick-stef!

Mæli með þessari bók í leiðinni:Góða helgi,
Halli

19. mars 2004

BOWLING

Þríðhöfða froskur kann ekki reglur keilunnar!Keilukveld í kveld! Ætlum nokkur að spreyta okkur með kúluna og sjá hvort úr verði ekki hefð. Veðrið í suður-Svíþjóð hefur verið með eindæmum gott enda fékk ég hálsbólgu á miðvikudaginn eins og tíðkast á vorin. Var t.a.m. 18 gráður á celsíus einhversstaðar á Skáni í gær.

Fann forláta mynd af þríhöfða froski sem fannst einhversstaðar í Englandi að ég held. Merkilegt og ógnvænlegt í senn. Einskonar þríamsþríburar eða svoleiðis? Virðast þó heilsuhraustir og nokkuð hressir á að líta (eins hressir og froskar geta orðið). Ætli aðrir froskar leggi hann/þá í einelti? Hvernig gengur honum/þeim að finna maka? Spurning hvernig froskaþjóðfélagið sé í stakk búið til að taka á þeim félagslegu vandamálum sem dúkka upp hjá síamþríburunum í framtíðinni.

Annars er Bogomil Font byrjaður að gaula þjóðþekkta Farinn eftir Skítamóralsgengið í ljósvakamiðlum Íslands. Verður forvitnilegt að heyra hvað hann hefur að leggja til málanna - kannski fjórða hljóminn?

Takk fyrir og góða nótt,
Halli

17. mars 2004

HITABYLGA

Stemmningin ágæt í dag, enda um 15 stiga hiti (hlýtur að vera met á þessum árstíma) og ég nýbúinn að senda partítúrinn til Helsingborgar-sinfóníunnar. Góð tilfinning en þó mikil vinna eftir þar sem ég þarf að skrifa út raddir fyrir hvert einasta hljóðfæri þar til í lok mánaðarins. Ella er að súrast í einhverjum fræðibókum sem ég kann ekki skil á og ætla ekki að útskýra nánar, annað en að þær eru súrar.

Michael MyersGláptum á vídeó hjá Agli og Dagnýju í gær. Þemað var skräckfilmer (hryllingsmyndir). Fyrst var glápt á nýjustu Halloween-myndina sem ekki var nema hálfdrættingur hálfdrættings fyrstu myndarinnar. "Unglingar" [unglingar í bandarískum bíómyndum eru yfirleitt milli 22-27 ára] gista nótt í gömlu húsi þar sem fjöldamorðinginn eiturhressi Michael Myers sleit barnsskónum. Nema hvað, hann er að sjálfsögðu mættur, sterkur á við Magnús Ver og tekur unglingana í bakaríið, en hópurinn tvístrast eins og furðulostið fiðurfé út um allar trissur, og gerir hvert heimskuparið á fætur öðru sér til aldurtila. Maður verður yfirleitt reiður á að glápa á svona þar sem allir taka ranga ákvörðun, fara einir inn í grunsamleg herbergi, gá hvort morðinginn er örugglega dauður, fara ekki út úr húsinu heldur niður í kjallara o.s.frv. Löggan er svo alltaf komin akkúrat þegar eina eftirlifandi fórnarlambið er búið að berja morðingjann með sjóðandi heitu vöfflujárni, stinga hann í brisið með kertastjaka, höggva af honum limi með keðjusög, gefa honum stuð m. 20.000 Watta rafmagnsköflum og þar fram eftir götunum. Samt er kauði alltaf jafn ern og til í tuskið í enda myndarinnar. Jæja, skemmtum okkur samt ágætlega þrátt fyrir þessa augljósu annmarka. Seinni mynd kvöldsins var öllu betri, Frailty í leikstjórn Bill Paxton, sálfræðitryllir af bestu gerð sem ég mæli eindregið með þrátt fyrir að hún sé næstum óþægileg á köflum.

Lag dagsins er að sjálfsögðu Walking on Sunshine m. Katarina and the Waves. Stendur fyrir sumar og sól (sérstaklega lokagrúvið)!
Skál!
Halli

15. mars 2004

Enn einn mánudagurinn í útlandinu

Stundum er furðulegt að vakna upp og nudda augun í útlöndum. Sérstaklega fyrir refi. Annars vorum við hjúin líka mygluð sem hel í morgun, sem oftar. Svefninn göfgar eða þannig. Dagurinn er óljós. Ætla að prenta út partítúrinn minn einhverntímann í dag og panta bowlingbrautir fyrir okkur krakkana. Dagsverki lokið. Þarf eitthvað að vinna í því að finna mér verkefni næstu daga ef ég á ekki að breytast í stein eins og tröllkerlingarnar gerðu í þjóðsögum og barnaafmælum.

Talandi um afmæli. Vorum í afmæli í gær hjá okkar ágætu vinkonu Emelie. Kaffi og kókosbollur (svona með rommi; uppáhald svallarana) og vingjarnlegt mas. Þar áður fór Gylfaginning IK, mitt "ágæta" fótboltalið hamförum á vellinum, tapaði 15-5 og vorum ánægð með tölur í leikslok. Með þessu áframhaldi förum við í Evrópukeppni félagsliða árið 2176. Neinei, bara að hafa gaman af þessu. Erum að spá í að kaupa inn menn til að styrkja liðið. Gangverðið á leikmönnum er á huldu en það má reyna.

Nóg í dag,
Halli

12. mars 2004

Frjádagur hinn 12.mars

Nú hefur verið lokið ágætri yfirferð um íbúðina, eins og hvítur stormsveipur. Við Ella höfum huxað okkur að fá okkur neðan í því með góðum vinum í kveld, ætlum að hýsa liðið og svo sjá til. Annars er allt rólegt, nú þegar ég hef lokið við stykkið. Jú, Hraunið er tilbúið og hér til hliðar má sjá mynd af strengjaröddunum sem hafa nóg að gera framan af. Annars lítið í fréttum annað en hryðjuverk og annar óhugnaður, Svíar eru uppteknir mjög af máli Mijailo Mijailovic, morðingja Önnu Lindh, þar sem sérfræðingar telja hann ekki geðveikan. Þetta með geðveikina hefur verið nefnt í hverju einasta morðmáli sem komið hefur upp hér í Svíþjóð síðan ég flutti hingað. Ef allir morðingjar eru bara dæmdir geðveikir, hverja á þá að setja í fangelsi?

Á léttari nótunum. Gróf upp forláta mynd af gömlum félögum sem stunduðu með mér nám í gaggó. Hér má sjá ykkar einlægan ásamt Adda, Jóa B., Friðjóni og Stebba sem var á góðri íslenzku "merry and gay" þennan ágæta en svala septemberdag sem myndin var tekin. Glögglega hefur vatn runnið til sjávar síðan fyrir 14 árum, en sumir okkar hafa ekkert breyst. Eða hvað? Endilega kommentið á þetta...

Kveðja að austan - góða helgi!
Halli

11. mars 2004

Látið sjávarepli

Fann ágætis mynd af þessari ágætu plöntu sem hljómsveitin Dead Sea Apple er kennd við á veraldarvefnum. Ósköp óskýr mynd í það minnsta en við sjáum þó greinilega að plantan er græn.

Annars var ég að klára síðustu nótur í Hrauninu. Mun hljóma afar ó-Hallalega að ég held, dálítið krómatískt og þungt. Ætla að leyfa Rolf nokkrum Martinssyni að lesa yfir þetta og svo er það bara í prent! Og það viku fyrir áætlun. Nokkuð gott bara. Ætlum að fá okkur öl í góðra vina hópi hér heima annað kvöld og svo erum við boðin í sænskt afmæli á sunnudag. Það verður jätte spennande!

Jæja, nóg í dag,
Halli

9. mars 2004

Góðan daginn!Hissa á því að ég skuli vera vaknaður? Jújú, kl.10 - nýtt stúdentamet í svefntökum í tvíbreiðu rúmi. Erum að skoða ferðir í sumar til Prag, ansi ódýrt og gaman. Well, nóg um það í bili.

Kv,
Halli

8. mars 2004

DERRICK
Derrick
og Harry Klein


Tveir flottir þýskarar sem nutu mikillar hylli Íslendinga seint á síðustu öld. Dagurinn í dag er tileinkaður þeim.

Vil benda öllum aðdáendum á Derrick-aðdáendaklúbbinn þýska...
Kv,
Halli

5. mars 2004

AFMÆLISBARN DAGSINS!

..er hún Tóta fyrrum kórstjóri minn í Skólakór Kársness sem er fimmtug í dag. Mikil veisla í kvöld sem ég missi víst af. Við getum mikið lært af valkyrjunni henni Tótu (þó ekki það að slappa af) og vil ég óska henni hjartanlega til hamingju með áfangann...

H.

Föstudagshugvekja

Ætla að skella mér yfir til Danmerkur seinni partinn og heilsa upp á onkel Danna sem er með góða gesti í heimsókn - það eru frænkur mínar Charlotta og Michelle sem ég hef ekki séð síðan Lennon áritaði plötu fyrir Chapman. Þetta er eitt af góðu hlutunum við að búa hér, að geta skyndilega á laugardagseftirmiðdegi dottið í hug að skella sér til útlanda og verið kominn á Ráðhúspladsen klukkan sjö. Skemmtilegt.

Annars bara almenn ótíðindi í gangi. Hef verið að pirra mig yfir orkunni sem ungkarlar á Íslandi eru að eyða í Feministafélagið. Sérstaklega er ekki hægt lengur að skoða batman.isþar sem einhverjir pésar með hor skrifa t.d. "Er á móti lýtaaðgerðum en notar sjálf farða". Halló? Svo eru þeir duglegir við að líkja kvenréttindabaráttunni við nasista og þar fram eftir götunum. Auðvitað á maður ekki að æsa sig yfir þessu því að 80% þessara gemsa vantar stóra kafla í greindarbókina, ósáttir við mömmu sem bannaði þeim að spila Counterstrike. Málefnalegt? Nei, svo sannarlega ekki.

Ruth Reginalds hefur verið að skandalísera heima með þessu lýtaaðgerðardóti, feministum til mikillar armæðu, sem og þeim sem þykir þetta svo mikið út í Hróa að það er næstum William Tell. Lognmolla í lagasmíðunum og almennt andleysi svo hún verður að halda nafni sínu á lofti, vera áberandi. Allir vita hver Ruth er. Ruth Rendell. Heitir raunverulega Rut Arnaldsdóttir, amma sem elskar að sauma út, drekka te úr glasi og skoða sig um í Kvosinni.

Nóg um það. Lag dagsins er Come on með Moloko. Stórskemmtilegt lag sem kemur manni í partýstuð.
Adios,
Halli

4. mars 2004

JET

Smá pistill um tónleika Jet á mánudaginn sl. í KB í Malmö.

Ekki var múgur né margmenni á tónleikastaðnum þegar við Íslendingarnir mættum glaðbeittir og bjartsýnir. Þá hafði upphitunarband kvöldsins, The Stands hafið upp hljóðfæri. The Stands eru úr bítlabænum Liverpool og hafa greinilega farið í Bítlaskólann. Nokkuð bitastæð tónlist með miklum þríröddunum og flóknum taktskiptum. Einkum var trommarinn áberandi góður, tók nett Ringo-sóló í lokalaginu og sýndi almennt snilldartakta.

Eftir The Stands upphófst mikið rót og starfsmenn Jet eyddu ómældum tíma í að tékka á gítar- og bassamögnurum. Kl.21.15 stigu Jet á svið frammi fyrir svona 500 manns og hófu kvöldið á Cold Heart Bitch. Svo tók hver rokkarinn við á fætur öðrum og skemmst frá því að segja að þeir hljómuðu ekki síður en á plötunni þeirra, Get Born. Endrum og sinnum fannst mér ég vera að hlusta á lög af ACDC-plötunni Dirty Deeds.... Stemningin í salnum hefði getað verið betri og sá maður nettan mánudag í Jet-liðum þar sem andlega voru þeir í 60% stuði. Það kom þó ekki niður á hljóðfæraleik og söng. Söngvarinn reif röddina hvað eftir annað en bar þess ekki merki að vera hás eftir hasarinn. Hann var heldur ekki sá eini sem söng - trommarinn og rytmagítarleikarinn sungu aðalrödd í nokkrum lögum. Eftir að hafa rokkað í gegnum nokkur lög var tími til kominn á kassagítarinn. Flutt var lagið Look What You´ve Done, dásamlegt McCartney-skotið lag og eitt besta lag plötunnar. Vel flutt og skemmtilegt. Þá var rokkinu haldið út til enda en miðað við konsert var þessi kannski frekar stuttur því Jet-arar stigu af sviði ca. klukkutíma eftir að þeir hófu spilamennsku, þá nýbúnir að leika Elvis-coverið That´s All Right. Kannski vegna þess að eitt stykki plata nægir bara í ákveðnar mínútur.

Í heild voru þessir tónleikar aldeilis ágætir. Hefði viljað sjá þá í aðeins meira stuði, en skiljanlegt þar sem svíar voru greinilega ekki að fatta þetta. Í nokkrum tilvikum fannst mér trommarinn hægja - og það fannst mér nett pirrandi. Annars var þetta næstum því bara eins og að sjá ACDC eða Rolling Stones-konsert, a.m.k. er ákafinn í músikinni slíkur. Væri til í að sjá þá rokka heima á Íslandi þar sem þeir myndu pottþétt fá betri móttökur.

Lag dagsins að þessu sinni er því Look What You´ve Done. Og hananú.

Kv,
Halli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?