<$BlogRSDUrl$>

29. febrúar 2004

ÓSKARSDAGURINN

Jæja, nýskriðin fram úr rúminu sem táningar eftir ágætis kveldmáltíð og smá djamm í gærkveldi. Gesti bar að garði um klukkan 19.00 og var reiddur fram afbragðslax á brauði með aspas og sósu, roast beef m. öllu tilheyrandi og að lokum dýrindis Daimkaka. Gestirnir (Gutti, Hugrún og Þóra) urðu við þetta saddir mjög og hófst þá drykkja fyrir alvöru. Kíktum með Þóru á Ariman á miðnætti (aðalhipp-staðinn í Lundi) en G og H héldu heim. Góð kvöldstund og opinberlega okkar fyrsta matarboð ever þar sem við aldrei haft pláss fyrir fleiri en okkur sjálf.

Í dag verður fótbolti spilaður af atorku, enda heilsan merkilega góð. Ætlum okkur að tapa með minni mun en síðast.

Vitum ekki hvort við leggjum í Óskarsvöku eins og við höfum gert í öll okkar búskapsár, enda orðin gömul og þreytt. Tökum þetta bara upp á myndband í myndbandstækinu okkar ágæta. Spái að Charlize Theron fái Skara fyrir sitt framlag. Hún gerði öll trixin sem þarf - bætti á sig kílóum, meikaði sig ekki og var ljót alla myndina. Erfiðara að spá um karlkvikindin þar sem ég hef ekki séð margar myndirnar, en væri til í að sjá Sean Penn taka eina styttu bara svona í góðum fíling. Og svo vil ég sjá Peter Jackson vin minn og hans hugarfóstur Hringadróttinssaga 3: Hilmir Snær aftur vinna fullt af styttum.

Lag dagsins er með áströlsku rokkurunum í Jet og heitir Timothy. Erum einmitt að fara að sjá þá á KB í Malmö á morgun. 100 kall sænskar inn - praktiklí gefins! Svíar vita greinilega ekkert hvaða band þetta er og ég notfæri mér það að sjálfsögðu. Úhahaha.

Blezz,
Halli24. febrúar 2004

HELGIN

Næs helgi að baki. Fórum á laugardagseftirmiðdag í sameignar-saunu heima hjá Þóru, Gutta og Hugrúnu. Svaka næs - öllari með í farteskinu svo eitthvað mýktist meira en vöðvar. Eftir það fór allur herskarinn á næs pizzustað, en vorum svo búin á því eftir það að allir héldu heim kl.21.00 í TV-gláp.

Á sunnudag var svo fyrsti leikur í V.deild Lugi-deildarinnar. Gylfaginning IK tapaði algjörlega. 11-1 fyrir einhverjum metnaðarfullum frökkum í Cantona-fíling. Þar sem við ætluðum bara að taka þetta á chillinu voru lokatölur viðunandi, sérstaklega að hafa náð einu marki (sem ykkar títtnefndur lagði upp).

Nú, í gær vorum við svo boðin í bolludagskaffi til Dagnýjar og Egils (í boði Gutta og Hugrúnar). Alldeilis góðar bollur sem Hugrún, Þóra og Dagný settu saman af einskærri lystisemi á meðan við karlar og Elín ræddum tölvur ýmiskonar.

Aldeilis búið að vera næs helgi semsagt. Enginn Saltkall og túkjöt í kveld þar sem við höfum ekki ráð á því (f.utan að það fæst ekki hér). Bíðum spennt eftir næsta föstudegi, sem er útborgunardagur námslána. Þá verður rokkað.

Lag dagsins: Alone in Kyoto m. Air úr myndinni Lost In Translation. Snyrtilegt lag.

Seinna meir,
Halli


20. febrúar 2004

HELGIN FRAMUNDAN

Ekki hefur mikið á okkar daga drifið undanfarna viku svo ég hef látið vera að skrifa. Nú er helgin framundan og ekki miklar líkur á að það verði stuð á fólki - mikið að læra og almennt áhugaleysi svona seint í mánuðinum. Fékk ávísun frá Lunds Energy þar sem við höfðum borgað of mikið. Heilar 156 krónur sænskar. Hjólaði eins og trylltur niður á torg og í glæpafyrirtækið Kassaservice (þar sem maður borgar fyrir að fá að borga reikninga) og veifaði framan í þá ávísuninni og íslenskum passa, þurfti að skrifa undir massa pappíra útaf þessu og fékk svo 131 krónu. Þeir taka víst 25 kall fyrir að skipta ávísuninni. Ojojoj. Jæja, Svíarnir vilja líka leggja þessa glæpastofnun niður (og hún er að fara á hausinn! Gott á þá!).

Fótbolti á sunnudaginn. Ég og Ella ætlum á hlaupabrettið í dag niðrí Victoria-stadion, kominn tími til að teygja anga sína til vors. Vera svo í hörkuformi í sumar.

Lag dagsins er Penelope með einsmanns-hljómsveitinni Pinback sem ég veit ekki meiri deili á. Þóra Björk systir benti mér á þetta band og það er hið prýðilegasta, svona Lo-Fi stöff......

Hafið það gott um helgina!

Blezz í bili,
Halli

16. febrúar 2004

KRAFTWERK - LISTAWERK!

Sælir! Nú hef ég smá pistil um konsertinn sem ég og Ella sáum í KB-hallen í Köben í gær.

Það var þéttsetinn bekkurinn af nördum ýmisskonar í KB-hallen og hálftími í Kraftwerk. Ef haldin hefði verið fegurðarsamkeppni á staðnum hefði ég unnið samstundis. Hér voru allir þeir sem fengu svona vísindakitt í jólapakkann þegar þeir voru 5 ára. Þeir segi ég því þarna voru flestir einhleypir karlmenn á aldrinum 35 - 50 ára, feitir með þykk gleraugu og sítt hár í tagli þó hárið væri að hverfa. Auðvitað var Ella ekki eina konan á svæðinu, en hér erum við að tala um að meirihluti gesta vöru danskir og sænskir nirðir.

Nema hvað - á þýskri stundvísi kl.20.00 hófst konsertinn með klassíkernum Man Maschine. Fjórir eldri menn stóðu grafkjurrir við sitthvort borðið og gláptu á ferðatölvuna sína, snéru einstaka sinnum knöppum og þurftu virkilega að halda í sér til þess að dilla sér ekki í takt við taktvissa raftónlistina (sá svo reyndar síðar að þeir voru með hljómborð þarna líka sem þeir spiluðu á á fullu). Til þess að þetta yrði ekki út í hött höfðu þeir sett upp bíótjald fyrir aftan sem sýndi smekklegar myndir í samræmi við lögin. Eftir Man Maschine tóku við nokkur lög af Tour de France-plötunni sem kom út í fyrra og er nokkuð smellinn þrátt fyrir að svona Euro-teknóhraði sé ekki þeirra sterkasta hlið. Hið frábæra lag Vitamin var hápunktur þessarar lagahrinu, bráðskemmtilegt lag sem minnir á gömul Werk. Svo tók við Autobahn og salurinn trylltist. Tók svo eftir því að einn Kraftwerkmanna byrjaði að "syngja" og leiddi sá sveitina það sem eftir var af konsert. "Fan, fan, fan auf der Autobahn". Þessi "söngvari" er hin eina sanna þýska "Kraftwerk"-rödd, karlinn frekar feiminn að vera að þessu gauli og leit oftar en ekki skömmustulega út fyrir að hafa látið út úr sér þessa veiku og tilviljunarkenndu tóna. Svo tóku smellirnir við. Das Modell tryllti lýðinn algjörlega og svo tók við Trans-Europe Express og Radioactivity. Mjög gaman og maður farinn að venjast þessari skrítnu sviðsframkomu.

Eftir rúman klukkutíma hættu Kraftwerkamenn að spila og allir ósáttir með tilheyrandi ópum og öskrum. Eftir mínútu sneru þeir aftur með lög af Computer World og nirðirnir misstu algjörlega gleraugun sín. Hápunkturinn var (fyrir mér) Pocket Calculator sem er besta lagið af þeirri plötu. "I´m the operator with my pocket calculator" er snilldartextagerð sem seint verður endurtekin. Eftir það voru tjöldin dregin fyrir á nýjan leik og enn vildi lýðurinn meira. Fimm mínútur liðu og þá var dregið frá og "The Robots" hljómaði í hátölurunum. Kraftwerkamenn höfðu skipt sér út fyrir fjóra róbóta sem litu út eins og þeir - geggjað flott. Eins og það hefði ekki verið nóg þá mættu Kraftwerkarar aftur á sviðið, nú í neonljósabúningum sem minnti óneitanlega á myndina Tron frá ´82. Nú var það Boing Boom Tjack og lokalagið varð AeroDynamik af nýju plötunni. Konsert lokið 22.10 og 1 stk. Robots-bolur í farteskinu.

Ef grúv er lína þá er James Brown á einum enda og Kraftwerk á hinum. Þýsk nákvæmni, hnitmiðaðir textar og almenn tilfinningaþurrð kemur ekki í veg fyrir að e-ð steinliggur í tónlistinni. Hlakka til að sjá þá á Hróarskeldu.

Lag dagsins: Vitamin m. Kraftwerk.
Frá Lundi, Svíþjóð
Halli

15. febrúar 2004

SUNNUDAGUR

Á föstudagskveldið var nýtt met slegið. Alls voru 11 manns í partýinu - aldrei verið svona margir í partýi í okkar húsum. Fór mjög vel fram, allir kátir og enginn nennti í bæinn. Stuðið stóð til kl.2.00 og allir fóru sáttir til síns heima.

Mætti síðan ágætlega þunnur á fótboltaæfingu kl.13.00 daginn eftir. Já, ótrúlegt en satt, ég spila nú með liðinu Gylfaginning IK í neðstu deild (ekki að ósekju) í Lugi-inniboltamótinu. Okkar fyrsti leikur er eftir viku, svo við ákváðum að hittast aðeins og þar sem ég þekki bara rúml. helminginn af liðinu. Ekki mikið um glæstar spyrnur, enda var það lifrin í flestum sem þurfti á mestri orkunni að halda. Til að toppa heilsuræktina var farið á Delphinen-pöbb og keypt pízza. Í dag eru það svo Hass-perur sem gera manni lífið leitt.

Erum svo núna að fara að leggja af stað til Köben að sjá Kraftwerk í KB-Hallen. Veit ekki við hverju á að búast - þeir eru svosem ekki þekktir fyrir sviðssprikl svo þetta gæti orðið dauft fyrir augað. En, hei, það er jú músíkin sem gildir. Nánari útlisting á konsertinum kemur á morgun.

L8R,
Halli

13. febrúar 2004

INNFLUTNINGSPARTÝ Í KVELD!

Já, nú er verið að þrífa fyrir okkar fyrsta opinbera partý síðan við fluttum hingað! Alldeilis spennandi, sérstaklega þar sem dagurinn er föstudagurinn 13. Þá er bara að vona að Jason banki ekki uppá (fyrir þá sem fatta). Annars ekkert í fréttum. Ella var að verja ritgerðina sína í morgun. Veit ekki hvernig gekk þar sem hún er ekki komin heim, þarf að sitja í gegnum allar varnirnar.

Svíarnir ætluðu að verða vitlausir þegar "okkar" ágæti kóngur, Gústi, missti útúr sér að einræðisherrann í Brúnei væri fínn kall. Nú vilja margir svíarnir leggja hann Gústa niður með öllu sínu hafurtaski, enda hefur hann áður gerst sekur um aulalegar setningar. Stígur víst ekki í vitið, karlinn. Það vekur óneitanlega spurningar þar sem margir Íslendingar púa á þetta kóngafólk. Ég veit ekki betur en að það sé embættismaður heima á Fróni sem gegnir nákvæmlega sama hlutverki; sækja flottar veislur, taka í höndina á einræðisherrum á borð við Kínaforseta og Brúnei-karlinn og láta birta slúður um sig og sína í ruslpóstum á borð við Séð og Heyrt og DV. Jú, ég tala um forsetaembættið. Berið þetta saman og sjáið hversu líkt þetta er (að frátalinni aldalangri hefð hér á Norðurlöndunum). Reyndar er Gústav bara kallaður Gústav en ekki Gústi Kústur, sbr. Óli Grís. Og hann á múltímilljónir. Ég er að ég held sammála að það eigi bara að leggja þetta niður og eyða frekar peningunum í e-ð annað í stað þess að kosta þessa valdalausu kristalsljósakrónu lýðræðisins. Málið er að sá peningur myndi líklegast hverfa í vasa þeirra ríkari;)...

Jæja, lag föstudagsins heitir Whispering At The Top of My Lung með hinum danska þrítuga Tim Christensen. Tim á líka lagið Right Next To the Right One úr Nikolaj og Julie-þáttunum sem eru gríðarlega vinsælir hér í Svíþjóð og víst á Íslandi líka. Tim þessi er fyrrum meðlimur dönsku gleðisveitarinnar Dizzy Mizz Lizzy og mjög greinilega betur settur án félaga sinna. Tónlistin minnir á poppaðan Chris Cornell og oft á skrítna hljóma belgísku sveitarinnar Soulwax, auk mikilla Bítla-áhrifa. Tékkið á honum...

Kveðja í bili,
Halli

12. febrúar 2004

GÓÐ GAGNRÝNI Í HELSINGBORGS DAGBLAD

Slóðin er hér!

Maður heldur bara áfram að monta sig.

"Konserten började med ett uruppförande, "7 songs of insomniac", av den isländske, men i Malmö studerande tonsättaren Haraldur Sveinbjörnsson. Sju sånger komponerade under sömnlöshet, eller om man så vill nattmusik för orkester. Suggestivt och raffinerat. Flitigt användande av rytmsektionen, men också eleganta formuleringar i stråkar och blås, som verkligen frammanande nattliga stämningar. Orkestreringen var synnerligen skicklig och bjöd en generös klangvärld. Orkester och dirigent hade uppenbarligen tagit partituret till sig, vilket också bidrog till framförandets positiva intryck."

Lauslega þýðir þetta:
"Konsertinn byrjaði með frumflutningi, "7 songs...", eftir Íslendinginn Harald S. sem stúderar í Malmö. Sjö söngvar samdir á andvökunóttum, e-k næturtónlist f. hljómsveit. Leiðandi(?) & fágað. Mikil notkun á slagverki, en einnig glæsilegar framsetningar í strengjum og blásarasveit, sem virkilega framkölluðu næturstemmningu. Hljómsveitarútsetningin (orkestrasjónin) var greinilega góð og bauð upp á mikilfenglegan hljóðheim. Hljómsveit og -stjóri höfðu augljóslega tekið til sín verkið, sem átti þátt í jákvæðum heildaráhrifum."

Lag dagsins að þessu sinni er Curtain Fall með Sophie Zelmani. Sophie er sænsk og einskonar kvenkyns Leonard Cohen, einstaklega ljúf í skammdeginu. Mæli sérstaklega með plötunum Precious Burden og þeirri nýju Love Affair.

Ekki meira í bili,
Halli

10. febrúar 2004

AÐ LOKNUM KONSERT

Jæja, þá er minni 15 mínútna frægð lokið í bili. Konsertinn kom afar vel út og ég svaka lukkulegur með þetta allt saman. Þarna hópaðist saman klapplið í kringum Íslendinginn; mamma, Oddný tengdamamma og Gestur hennar, pabbi, Danni frændi og Elísabet hans ásamt sænskum klappstýrum úr Munka Ljungby (vinafólki Oddnýjar). Það var svo gott að eiga góða að út í sal að ég stóð meiraðsegja upp á sviði og pråtade svenska eins og herforingi í SAAB. Það var semsagt fræg fjölmiðlakona, Marianne Söderberg, sem tók við mig viðtal frammi fyrir fullu húsi (uppselt á konsertinn!) áður en verkið var flutt. Verkið heppnaðist gífulega vel, Hannu Lintu náði hárnákvæmt því sem ég hafði skrifað í partítúrinn og engar feilnótur - betra en í maí. Svo komu margir í hléinu og lýstu því yfir hversu fínt þetta var. Bara perfect! Svo maður lifir á svona egóbústi fram yfir páska, ég verð hrokafyllri en Bó Hall á dísum með þessu áframhaldi.

Mútta fór síðan heim í morgun eftir skemmtilega dvöl í nýju íbúðinni, og tengdó og Gestur gista hér í nótt. Akkúrat núna er náðarstund hjá okkur þar sem ég blogga hér í góðum fíling, Gestur sofandi yfir sjónvarpinu og Ella og Oddný í bænum að skila peysu sem Oddný keypti sér í morgun en var svo með gati á miðju bakinu. Góður matur í kveld og svo halda þau heim á frónið í fyrramálið en alvara lífsins tekur við á Kämnärsvägen 8. Framundan? Jú, innflutningspartý á föstudaginn, Kraftwerk á sunnudaginn og jú, svo er ég kominn í fótboltalið.

Meira um það síðar...

Stay tuned (Verið víruð),
Halli

5. febrúar 2004

GESTIR AÐ UTAN!

Úhahahaha! Nei, þetta er bara mamma sem er að koma í heimsókn til okkar á morgun. Verður hér fram á þriðjudag. Verður stuð á okkur þar sem við getum loksins tekið almennilega á móti gestum. Þeir/þau verða þó að hýrast á vindsæng í stofunni. En vindsængin er engu að síður góð til síns brúks. Á laugardaginn er stefnan tekin á Ängelholm þar sem við ætlum að heilsa upp á Oddnýju tilvonandi tengdó og Gest, en þau komu einmitt til Köben í dag og ætla að gista hjá vinafólki í Ängelholm - verður semsagt boð þarna á laugardagskveldinu. Spennandi.

Fylgist annars með mogganum, það hringdi í mig blaðakona í dag og spurði mig spjörunum úr.

Blessíbili,
Halli

4. febrúar 2004

TÓNLEIKAR

Til þeirra sem ekki vissu:
Á sunnudaginn 8.febrúar klukkan 18.30 að staðartíma nk. flytur Sinfóníuhljómsveit Helsingborgar verkið 7 Songs of the Insomniac eftir ykkar einlægan í Konserthúsinu í Helsingborg. Allir að mæta - í líkama sem og í anda...

Stundum fer þetta blogg alveg með mann - pósturinn hér fyrir neðan birtist allur í spurningamerkjum svo ég þurfti að leiðrétta það allt upp á nýtt!!! Sj***!

EITT OG ANNAð

Við erum nývöknuð og sötrum kaffi hér að lesa moggann í góðum gír. Svona týpískur morgunn, það er morgunmatur, kaffi og mogginn á netinu. Leggjum í síðustu framkvæmdir hér í dag. Ljósið í stofunni skal upp og ekkert þvaður með það. Fyrr hafði ein ágætis hilla verið sett upp sem samsvarar sér vel í stofunni. Kóreusófinn er hættur að lykta eins og hrumt gamalmenni (þökk sé undraefninu Fabreeze) og því er þetta bara komið í orden fyrir heimsóknirnar næstu daga. Foreldrar mínir, Oddný tengdó og Gestur hennar mæta ásamt Danna frænda og hans spúsu, og velvöldum Svíum á konsertinn sem er n.b. í Konserthuset í Helsingborg sunnudaginn kl.18.30. Allir að mæta og styðja við bakið á sínum manni! Skilst að SVT (sænski ríkisimbinn) taki upp einleikarakeppnina sem framin verður eftir verkið mitt. Aldrei að vita nema þeir festi þetta á filmu.

Er að reyna að setja upp netið fyrir Ellu. Hef rekið mig á að þaðer ekki tekið út með sældinni að vera ótalandi útlenskur stúdent. Tökum sem dæmi ef þú ætlar að setja upp netið - þú færð einblöðung á ensku og sænsku. Eftir það rekur hver vitleysishátturinn annann.

í fyrsta lagi: Ef netið hjá þér virkar ekki áttu að fara á heimasíðuna www.blabla.se til þess að sjá hvað er að. OK, hmm.
í öðru lagi: Ef þú kíkir á síðuna www.blabla.se á netkaffi niðrí bæ stendur efst í horninu: "sorry, this page is only available in swedish"

í þriðja lagi: Þú nærð að krafsa þig í gegnum sænskuna og finnur loksins upplýsingar um netuppsetningu á WindowsXP. Nei,nei. Svíar nota nefnilega SÆNSKT WindowsXP svo Properties verður Egenskaper, Explore verður Utforska o.s.frv.

Ekki eina dæmið um skammsýni svía þegar kemur að öðrum tungumálum. Eyrarsundslestin kemur við á Kastrup-flugvelli áður en hún fer yfir brúna góðu. Þú stígur inn, útlendingur í góðum fíling. Fljótlega heyrast tollaleiðbeiningar á ensku. Allt gott með það og þú maular Kex, krossleggur fætur og hallar þér aftur. Svo heyrist hljómfögur frú segja mjúklega "The next station is Malmú" (hún segir Malmú). Þá veistu það. Gott að þú stóðst enskuna hjá Villu í gaggó. Þú þarft samt aðeins lengra, nánar tiltekið til Lundar. Allir fara út úr lestinni. Hmmm, er Malmú síðasta stopp eða heldur lestin áfram eins og skiltið á Kastrup gaf til kynna? Þú situr einn svona 10 mín og ferð síðan að verða órólegur. Allt í einu heyrist þus í gormæltum manni sem hljómar eins og hann sé undir kögri að tuða í falinn míkrafón á samkomu hjá Krossinum. Engin enska, á þessum 10 mínútum áttir þú, útlendingurinn vinsamlegast að ná tökum á sænskri tungu, ná áttum á skánskum hrognahreim og sitja sáttur áfram í lestinni.

Að lokum. Setning dagsins er úr jólamyndinni snjöllu Christmas Vacation. Stundum þarf maður að rasa út , en Clark Griswold tekur það á æðra stig...

Clark: Hey. If any of you are looking for any last-minute gift ideas for me, I have one. I'd like Frank Shirley, my boss, right here tonight. I want him brought from his happy holiday slumber over there on Melody Lane with all the other rich people and I want him brought right here, with a big ribbon on his head, and I want to look him straight in the eye and I want to tell him what a cheap, lying, no-good, rotten, four-flushing, low-life, snake-licking, dirt-eating, inbred, overstuffed, ignorant, blood-sucking, dog-kissing, brainless, dickless, hopeless, heartless, fat-ass, bug-eyed, stiff-legged, spotty-lipped, worm-headed sack of monkey shit he is. Hallelujah. Holy shit. Where's the Tylenol?

Blezz,
Halli

1. febrúar 2004

...og munið gestabókina (gestapó(k)) hér í hægra horninu - ekkert jafn frískandi og skilaboð að vestan...

KOMMENTAKERFI KOMIÐ Á

Skv. ábendingu frá Þóru M. ætla ég að prufa þetta kommentakerfi. Nú getið þið, gestir nära och fjärran, tjáð ykkur um skrifin hér á síðunni. Eða bara bullað eitthvað. Fyrir neðan hverja færslu stendur "Comment" - þið einfaldlega smellið á það til að setja út á textann minn, ef þið eruð ósammála hugmyndum um styttu af Pétri Blöndal í Hamraborg eða eruð sammála mér um byggingu tónlistarhúss á Kársnesi...

L8R,
Halli

P.S. Nú vantar mig bara að geta sett inn myndir - e-r sem kann það?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?