<$BlogRSDUrl$>

30. janúar 2004

FRANCESCONI

Minn ágæti nýráðni prófessor, Luca Francesconi, mætti í bæinn í fyrradag til að þruma yfir okkur visku alla leið frá Mílanó. (Hann flýgur á milli í hvert sinn!)
Luca er lítill fertugur ítali með svart krullað hár og stundum setur hann upp kringlótt gleraugu. Hann stúderaði meðal annars hjá ekki ómerkari mönnum en Karlheinz Stockhausen og Berio, og veit vel hversu merkilegt það er. Luca er mjög heimspekilegur í huxun og hefur skemmtilega nálgun á tónlistina. Sat t.a.m. hjá honum í tíma þar sem við töluðum (eða hann reyndar mest) um orkester-stykkið mitt. Þar sem það heitir vinnuheitinu Hraun vildi hann að ég kafaði djúpt oní jarðfræðina og pældi svoldið í eðli hraunflæðis.
Núna á eftir er ég svo að fara á fyrirlestur hjá honum Luca sem eflaust á eftir að fara inn á heimspekilegar hliðar hinnar "æðri" tónlistar og listar yfir höfuð. Það verður spennandi og vonandi ekki of langt...

Kveðjukeðjur,
Halli

29. janúar 2004

SVÍAR EKKI Í ÚRSLIT

Veit að síðan lítur út eins og bloggið hans Samúels Arnar en verð bara að segja frá þeirri þjóðarsorg sem ríkir í kjölfar ósigursins gegn Danmörku í Evrópukeppni karla í handknattleik 2003. Síðasta mót Staffan "Faxe" Olsson (hringdi í hann og bað hann vinsamlegast um að hætta þessu). Svíar verða nú að grafa upp nýtt handboltalið. Við Hallandsásinn. Swedes for my sweet, sugar for my honey...

L8R,
Halli

26. janúar 2004

OG EDDUNNI ER LOKIÐ!

Já, sá merki atburður átti sér stað hér nú undir kveld í Lundi að Haraldur V. Sveinbjörnsson sló síðustu nótu EDDU I eftir Jón Leifs inn í tölvuforritið Sibelius. Þar með eru allar nótur verksins komnar í tölvutækt form. Hér er brotið blað í íslenzkri tónlistarsögu, og ljóst að loksins getur orðið af frumflutningi verksins sem beðið hefur verið eftir síðan 1939. Margt er þó eftir ógert. Nú hefst víðtæk yfirferð, prófarkalestur og raddir dregnar úr raddskránni til handa hljóðfæraleikurum. Ef vel heppnast má gera ráð fyrir að verkið berist í eyru soltinna aðdáenda Jónsa upp úr 2005...

Alltaf fyrstur með fréttirnar,
Halli

NÝ HÚSGÖGN

Þar sem við búum í heimalandi húsgagnakeðjunnar IKEA var við hæfi að við kynntum okkur húsakynni þeirra suður á Málmhaugum nú á föstudaginn. Jú, mikið rétt, fátæku námsmennirnir eyddu fleiri tugum þúsunda íslenskra ríkisdala í mublur ýmiskonar og smádót, glös, spegil, púða, diska, mottur, hillur, sjónvarpsborð o.s.frv. Til þess að þurfa ekki að drösla þessu í strætó var leigður vígalegur sendibíll frá Statoil. Kvöldið áður ákváðum við að fjárfesta í Kóreu-sófasettinu og hvíta borðstofusettinu sem við sáum niðrí hjálparstofnun stúdenta, Eriksson-hjälpen. Ætluðum í leiðinni að grípa ljóta sófasettið og borðstofuhúsgögnin í Eriksson-hjälpen en það gekk ekki þar sem þau eru með lokað á föstudögum. Lokað á föstudögum. Jahá, þeir eru magnaðir Svíarnir.

Fórum því á laugardeginum og þar sem enginn hafði keypt þetta á undan okkur, drifum við í því að borga þetta upp í topp. Ella hringdi svo og ætlaði að fá sendiferðabíl. Þá eru þeir ekki til. OK, allir veitingastaðir eru lokaðir á sunnudögum. Lestir hætta að ganga klukkan 22.10 frá Helsingborg til Lundar. Stundum skilur maður ekki að það sé yfir höfuð þjóðarframleiðsla í þessu landi.

Við komumst svo að því að sendiferðabílar eru í raun til í Lundi - þeir ganga samt bara á virkum dögum milli 8 og 16. Fáum því sófasettið á morgun, þriðjudag. Því það er lokað á mánudögum í Eriksson-hjälpen! Kommon!

Vinnugleði íslendinga er að því virðist sér á báti, í samanburði við okkar afslöppuðu granna hér í austri.

Blezzz í bili,
Halli

...OG SVONA FÓR SJÓFERÐ ÞÁ...

Jæja, það er búið. Íslendingar skíttöpuðu í riðlinum sínum og héldu heim með skottið á milli lappanna. OK, þrátt fyrir að ekki hafi vel tekist núna er óþarfi að Ólafur Stefánsson þurfi að biðja þjóðina afsökunar, eins og hann gerði beygur í mogganum í dag. Glæpapólitíkusar biðjast ekki einu sinni afsökunar svo því ætti hann að taka það upp. Við tökum þá bara stefnuna á Ólympíuleikana (verða þeir í sumar?)...

Kv,
Halli

22. janúar 2004

HANDBOLTI

Loksins komið að því að fara að reita hár sitt enn á ný. Handboltaleikir umkringja okkur hér í Sverige, þar sem Evrópukeppnin hefst eftir uþb klukkustund. Þar sem Sjónvarp allra landsmanna getur ekki drullast til að sýna leikinn á netinu, neyðumst við til að hlusta á herlegheitin í radíóinu (á netinu). Arrgh! Jæja, getum allavegna fylgst með 3 leikjum í einu þar sem við sjáum bæði sænsku og dönsku leikina.

Fórum niðrí Eriksonhjälpen, a.k.a. einhverskonar Góði Hirðirinn, fullt af flottum notuðum húsgögnum á spottprís. Oftar en ekki antík þar á ferð. Þar lá sófi einn; ég hef ekki séð ljótari sófa síðan fyrir Kóreustríð, en mjúkur og góður var hann svo maður var næstum búinn að taka upp budduna. En - ákváðum að bíða eftir sófa sem stingi ekki svona í augun.

Jæja, handboltinn að byrja og ég ekki kominn í treyjuna...

Kv, Halli

P.S. Stebbi, hættu að rífa kjaft....:)

21. janúar 2004

EKKERT AÐ FRÉTTA

Það er gjörsamlega ekkert að frétta svosum. Höfum bara hangið hér, lært og farið í skólann síðan síðast. Stefnum á IKEA-ferð fyrir helgi. Síðan er það náttúrlega EM í handbolta sem ég neyðist til að fylgjast með í gegnum netútvarpið. Svíar og Danir eru svo uppteknir af sínum mönnum að ekkert annað kemst að.

Jæja, mér dettur kannski e-ð í hug á morgun...

Kveðja þangað til,
Halli

19. janúar 2004

AF AUSTURFÖRUM

Týnd en fundin á ný. Netið í nýju íbúðinni virkar loksins. Og þá held ég að sé við hæfi að skoða atburði liðinnar viku.

Lentum eftir jólafrí á Íslandi þann ágæta 12.janúar (að ég held). Lögðumst þreytt til hvílu hinstu nóttina í 21 fermetra, enda ennþá legið á meltunni eftir einstaklega át-takanleg jól. Daginn eftir var náð í lykilinn að nýju íbúðinni sem er tvöfalt stærri. Og þvílík snilld! Nóg pláss til athafna, stór og sællegur ísskápur, baðherbergi dauðans (reyndar eiginlega of mikið pláss þar - hvað á maður að gera annað en að sturta sig og hægja á sér?) og tvö rúmgóð herbergi. Við ljómum enn yfir þessu öllu saman. Skelltum búslóðinni á risahjólbörur og rúlluðum yfir í Kämnärsvägen 8 á tveimur dögum. Che-, Abbey Road- og Jaws-plakötin eru komin upp á vegg og nú vantar bara húsgögn til að fylla þetta. Revolver-plakatið bíður eftir sófa í stíl. Fórum svo á föstudaginn og eyddum um 15 þúsund ísl. ríkisdölum í smádrasl (f.u. borvél og loftljós), snúrur og tengi ýmiskonar. Ótrúlegt hversu miklu er hægt að eyða í e-ð sem enginn sér!

Ætluðum undir lok vikunnar á handboltaleikinn gegn Svíagrýlunum sem var hér í Malmö, nema hvað að eftir nokkur vitlaus símtöl í heimahjúkrun Málmeyjar komst ég að því að það var bara uppselt. Bömmer en samt ekki því við töpuðum. Hvernig væri að að leggja Faxe og Magnús Víslander niður? Ellibelgir sem verða ábyggilega uppstoppaðir í anddyri sænska íþróttasambandsins...

Tókum svo létt djamm með kollegum okkar hér í Lundi, fórum m.a. á hinn sögufræga Smålands-Nation pöbb þar sem áfengið er næstum ókeypis og kommúnistatáknin eru upp um alla veggi. Gaman að þessu.

Skólinn hófst svo í dag hjá okkur báðum. Ella verður í brjálæði fram að tónleikunum 8.febrúar, en þá er von á mörgum íslenskum gestinum í okkar ágætu húsakynni. Ég á reyndar að vera að skrifa eitt orkesterstykkið enn svo maður er bara bissí.

Ólrægtíðen,
Halli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?