<$BlogRSDUrl$>

14. desember 2003

HEIMFERÐ

Loksins er komið að heimferð. Erum búin að vera á þönum um helgina - fórum til Malmö í gær og redduðum nokkrum gjöfum til viðbótar. Mjög jólalegt þar - kerti útum allt og góð stemning. Erum einmitt að fara í Nova Lund til þess að kaupa síðustu gjafirnar.

Ætli maður hafi nokkurn tíma til að hripa niður nokkurn skapaðan hlut í ösinni heima. Sjáumst síðar.....

Kv,
Halli

11. desember 2003

RÍKISSTJóRNARÓFÉTIÐ

Það er "gaman" að fylgjast með ríkisstjórn Íslands að störfum héðan úr Svíþjóð. Undanfarnar vikur hefur hvert óaldarfrumvarpið rekið annað og ekki annað hægt en að taka undir með Gunnari Smára Egilssyni á Fréttablaðinu að hér sé einhvert hálfkáf á ferðinni. Má þar nefna 3 daga atvinnuleysið-frumvarpið félagsmálaráðherra og hafsjó af vitleysu hjá Maíssen. Svo rak ég augun í að 10% flata lækkun vaxtabóta hefði verið samþykkt. Það er gert til að koma í veg fyrir skuldasöfnun einstaklinga með meðalháar/háar tekjur. Hmmm. Lesið þetta aftur. Hvað með þá tekjulágu sem strögglast við að borga af skitinni 54 fm íbúð - eini "bónusinn" þeirra skertur um 10%.

Eins er hækkun kjara efstu æmbættismanna ekki úr lausu lofti gripin. Klæðskerasniðið fyrir Davíð "The King" Oddson, sem ætlar að lifa eins og kóngur eftir að hann hættir á miðju kjörtímabilinu. Nóta Bene - verðbólgan er að fara upp úr verstu spám. Spái því sjálfur að Íslendingar verði reiðir í dag og í fúlu skapi um helgina en búnir að gleyma þessu öllu eftir viku.

Ég er að spá í að hanga hérna í Svíþjóð aaaaaðeins lengur...

Chiao,
Haldur (heiti það í bókum AF leiguíbúða)

10. desember 2003

EKKERT TÍTT

Vinna, sofa, glápa. Jú einstöku sinnum göngum við á svotilgerðum þrekstigum í heilsuræktinni LUGI. Þessi vika ætlar að líða hægt. Stemmningin er þrúgandi enda við bæði undir pressu að ná dauðalínunni fyrir 16.des. Súr stemmning þar sem við skemmtum okkur nú mest yfir færeyskum heimasíðum. Það er ekkert fyndið þegar sprengjur springa (nema á áramótum). En í Færeyjum, þar bresta bumbur. Það verða því margar bumbur sem bresta á áramótunum. Fyndið!

Hér er svo sýnidæmi úr vinnunni minni:
"Veigr ok Gandálfr,
Vindálfr, Þráinn,
Þekkr ok Þorinn,
Þrór, Vitr ok Litr,
Nár ok Nýraðr,
Reginn ok Ráðsviðr...."

Já, ef Jón Leifs [og hr. Sturluson] væri á lífi væri ég stundum til í að sýna honum hvar Davíð B. Franzson keypti ölið...

Kv,
Halli

6. desember 2003

NOVA LUND-DAGUR

Jæja, nýtt met sett! Við skötuhjúin vöknuðum kl.10 til að fara í þvottahúsið. Á laugardegi! Kl.10! Þessi dagur er hérmeð skráður á spjöld sögunnar. Þetta þýddi þarmeð að við gátum unnið í okkar verkefnum framaðhádegi, en þá var farið í jólagjafaleiðángur í Nova Lund - Kringlunni í Lundi. Gekk bara vel, mikið keypt að þessu sinni enda var maður í brjáluðu stuði. Eftir það fórum við í verslunina Malmborgs að kaupa sjávarföng við undirleik Einars Ágústs og Thelmu. Mjög furðulegt svona í miðju trans-landinu Svíþjóð.

Einleiks-kontrabassastykkið mitt fyrir Hávarð Tryggvason er nú tilbúið fyrir CAPUT-tónleikana í apríl, ekki seinna vænna þar sem hann þarf þetta fyrir áramót. Veit ekkert hvað það heitir, verð að spyrja Ellu. Eins er rafverkið að skríða saman en minna fer fyrir hljómsveitarstykkinu sem Helsingborgarsinfónían fær að spreyta sig á í maí. (þvílíkt mont í einni málsgrein!)


Annars sama, ekkert spes að frétta nema hlökkum til að stíga fæti á íslenska grund. Aftur.

L8R,
Halli

5. desember 2003

FÖSTUDAGURINN FIMMTI

Kominn á fætur fyrir allar aldir (í Svíþjóð er það upp úr átta) og sit hér með kaffibolla að blaðra við ykkur, lesendur engir. Öllu skárri eftir átök við Kýrópraktorinn minn sem lét sko í mér heyra í gær. Er núna búinn að fara 3svar og öllu skárri í bakinu, enda var ég eins og þrítugt gamalmenni hér um daginn.

Skellti upp link hérna til hægri þar sem hægt er að ná í furðuleg hljóðskjöl, þar á meðal getum við heyrt dinnerútgáfu af Soundgarden-laginu Black Hole Sun, Ragga Bjarna gruggast í Smells Like Teen Spirit, og Tom Jones og Moog Cookbook flytja Kung Fu fighting. Þessi síða er líka með ca. 15 - 20 lög um kjúklinga. Steikt síða með sveppum.

Elín situr sveitt við skriftir (nei, það situr ekki kaþólskur prestur í eldhúsinu) því endurkoma okkar til Fróns verður staðreynd eftir 1 og 1/2 viku. Ótrúlegt en samt þó ekki - reglulegar flugsamgöngur til Íslands hófust 1953. Hef ekki séð hana svona afslappaða yfir ritgerð síðan við hófum búskap fyrir aldamót.

Ætlum að taka þátt í neysluæðinu um helgina og kaupa gjafir. Milli þess sem við reitum hár okkar af stressi yfir öllu því sem liggur fyrir áður en við komum heim.

Nóta Bene: Fyrir gallharða Dead Sea Apple aðdáendur og aðra dáendur, má geta þess að sveitin verður með sveitta endurkomutónleika á hinum 20 ára gamla Gauki á Stöng að kveldi þess 22.desember. Að því tilefni ætlar sveitin að æfa saman í fyrsta skipti síðan fyrir aldamót (satt!) svo fólk fái eitthvað fyrir sinn snúð (þ.e.a.s. ef það mæta bara bakarar). Það verður bæði gaman og skemmtilegt - lofa því.

Nóta Bene Bene: Af hverju heitir hann Meat Loaf? Kjöthleifur? Væri ekki skárra að heita Meet Love? Hmm, nei kannski minna rokk. En ef Meat Loaf er rokkari þá er ég falskur héri...

Gin í greip,
Halli

2. desember 2003

SIGURÐUR H. RICHTER

Aðeins meira um þennan merka mann. Er hann ennþá í sjónvarpinu? Já, algjörlega - æviráðinn! Hann hefur ekki breyst síðan hann byrjaði (örugglega með hruma sjálfsmynd af sjálfum sér inn í skáp - svona Dorian Grey-style) fyrir utan það að hafa gránað lítillega. Þetta örugga augnaráð og auðmjúka glott hverfur seint úr minni. Ekki má gleyma að hann er með næmt eyra fyrir upphafsstefjum og auga fyrir áhugaverðum vísindamyndum. Sönn útflutningsvara og þjóðargimsteinn...

Kv,
Halli

KRAFTWERK-MIÐAR Í JÓLAGJÖF

Erum búin að kaupa miða á Kraftwerk í Köben í febrúar. Gamlingjarnir komu saman í fyrsta skiptið í langan tíma og sömdu albúmið Tour de France 2003 og eru nú að túra með syntana sína. Frekar misjafnir dómar og allt það en alveg þess virði að tjútta við Nýjustu Tækni og Vísindi-stefið. Var að spá í að senda Sigurði H. Richter miða bara til að sjá hann dansa vélmennið við Computer World. Finnst hann ætti að vera kynnir á konsertinum. Textar Kraftwerk eru líka svo mikil snilld. Hér á eftir koma nokkur dæmi.

"Music Non Stop - Techopop",
"I´m the operator with my pocket calculator (By pressing down a special key it plays a little melody)",
"Interpol and Deutsche Bank, FBI and Scotland Yard",
"We're charging our battery
And now we're full of energy
We are the robots"

Þið eruð öll full af öfund!

Skák,
Halli

1. desember 2003

FYRSTA PARTÝIÐ!

Nei nei, ekki fyrsta partýið sem við förum í hér heldur fyrsta partýið sem við höldum. Laugardagskvöldið kemst í sögubækurnar fyrir þær sakir að þá heimsóttu okkur þrjár persónur svo úr varð partý. Það voru þau Þóra, Dagný og Egill sem mættu og drukku með okkur kokteila. Semsagt fyrsta partýið haldið á Kämnärsvägen 4 íbúð 1045.

Ekki nóg með það. Þóra kom svo í heimsókn á sunnudagseftirmiðdag og þarmeð settum við nýtt met í félagslífininu (fórum til Þóru á miðv.dag og spiluðum Trivial). Þetta er allt að koma...

L8R,
Halli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?