<$BlogRSDUrl$>

28. nóvember 2003

MR. SENSITIVE PONYTAIL...

Minn ágæti kennari, Kent Olofsson, klippti af sér síða hárið. Ég vil óska honum til hamingju með það! Þetta "Sensitive Pony Tail" hár er mjög misskilið hér í Svíþjóð og þyrfti að kenna einskonar HÁRTÍSKU 103 í menntó...

Skál,
Halli

MÓT

Eigum í vandræðum með okkar ágæta eldfasta mót. Það er nefnilega fullstórt þannig að við þurfum að elda fyrir okkur og fimm manna fjölskyldu - eiginlega svona ættarmót. Þyrftum að kaupa okkur minna svo við þurfum ekki annaðhvort að horfa upp á botnfylli eða éta á okkur tvöfalt gat. Ætlum að fara á næstu dögum að leita okkur að hæfilegu móti. Þyrftum að vera með mótmæli...

Kv,
Halli

27. nóvember 2003

NÝ ÍBÚÐ!

Erum búin að fá stærri íbúð! Eftir að hafa verið á biðlista í 15 mánuði hringdi í okkur kona sem bauð okkur nýtt. Verðum reyndar að borga tvöfalda leigu í janúar - en vægt verð fyrir geðheilsuátak. Okkar vera í þessum ágæta sjálfsmorðsteningi orðin ágæt eftir rúmlega eins árs dvöl. Nýja íbúðin er svosem ekki stórkostleg tímamót. Þetta er í rauninni bara tvöfaldur sjálfsmorðsteningur, en fyrir utan það að maður getur nú skipt um skoðun eða farið í fýlu í næsta herbergi er þarna stór ískápur með frysti og eldavél og ofn. Eldhúsið og klósettið er tvöfalt stærra en í holunni okkar. Samtals heilir 44 fermetrar, nýtt stærðarmet í okkar ágæta búskap sem byrjaði fyrir aldamót nota bene! Víðáttubrjálæði verður landlægt vandamál þegar við loks komum heim...

Tvöfaldi teningurinn er í næstu húsaröð við okkar, númer 8. Svo þegar við flytjum berum við bara húsgögnin á milli. Báðir (hehe) gluggarnir snúa að vísu í norður en útihurðin snýr út í port og víst að það er vísir að steikarpotti þegar líður á sumarið. Öllum er því boðið í partý í febrúar. Á meðan húsrúm leyfir...

Kv,
Halli

26. nóvember 2003

ENNÞÁ LENGRI ÞöGN!

Það er ekki að ósekju að maður hefur verið latur við að skrifa. Höfum verið í móki þennan mánuð, legið lengi í bæli og þjáumst líklega af lægðarsýki. Veðrið hefur svosem verið ágætt en dimmt og meira eða minna skýjað. Erum bæði lítið í skólanum þessa dagana og erum því "upptekin" við skólaverkefni. Hefur oft gengið hraðar fyrir sig. Verðum að drösla í okkur lífi áður en við breytumst í áburð...

Kv,
Halli

6. nóvember 2003

VÁ, LÖNG ÞÖGN...

Já, það á ekki að láta okkur í friði með þessa nettengingu okkar. Höfum barist við netmafíuna sem blokka okkur sí og æ útaf engu er virðist. Mörg leiðinleg símtöl hafa verið framin í höfuðpaur klíkunnar og hann ýmist opnað fyrir nettenginguna aftur eða bara stunið í símann og ekkert vitað í sinn haus. En - nú hefur þetta verið stabílt í viku og þá um að gera að taka fram "pennann" og skrifa niður eitthvað um hvað á daga okkar hefur drifið.

Meira síðar....

Hall

This page is powered by Blogger. Isn't yours?