<$BlogRSDUrl$>

20. maí 2003

KONSERT

Hef verið of upptekinn af sjálfum mér undanfarið til að geta skrifað inn á síðuna. Eins og margir vita sótti ég æfingar hjá Helsingborgarsinfóníunni í síðustu viku. Á föstudaginn 16.maí var svo konsert þar sem stykkið mitt ásamt öðrum var flutt. Æfingarnar gengu vel fyrir sig - hljóðfæraleikararnir hegðuðu sér eins "pró" og huxast getur og finnski stjórnandinn Hannu Lintu var ágætur. Þarna voru semsagt tvö frumsamin verk; eftir mig og Martin nokkurn Svensson. Einnig voru þarna hljómsveitarútsetningar eftir aðra nemendur. Það var ágæt mæting á konsertinn, a.m.k. miðað við að hann var í hádeginu. Þarna mættu líka Danni og Elísabet úr Köben í fyrsta skiptið á klassískan konsert. Allt gekk að óskum. Eftir konsertinn var síðan viðrað hvaða stykki yrði svo flutt á "almennilegum" konsert næsta tónleikaár. Og viti menn! Ánægður með það.

Ekki var mikið partýstuð á samnemendum mínum þarna eftir giggið svo ég og Ella héldum heim í Lund. Fórum þess í stað í Systembolaget, keyptum okkur smá öl og freyðivín og héldum upp á árangurinn með því að fara á þennan líka frábæra ítalska stað, Fellini. Fínt kvöld, byrjuðum snemma og komin heim í háttinn upp úr eitt, enda þurfti mín heittelskaða að stúta einu stykki 15 bls. ritgerð fyrir miðvikudag...

13. maí 2003

...OG EFTIR KOSNINGAR

Jæja, þá eru góðir Íslendingar búnir að kjósa yfir sig vitleysuna fjórða kjörtímabilið í röð. Oj. Var búinn að lýsa því yfir að ég kæmi ekki heim fyrr einræðisherran Dúmbó með krullurnar fengi sér aðra vinnu. Veit ekki hvort ég stend við það, en það verður freistandi.

Ótrúlegt hversu vitlausir sumir Íslendingar eru. Það eru jú ca. 10%-15% sem virkilega þurfa að reiða sig á auðvaldsstefnu Sjálfstæðismanna. Hvaðan koma þá hin 15%-20%? Ekki með svörin á reiðu, en get ímyndað mér að það séu Íslendingar sem kaupi Bubba á hverju ári. Bubbi er nefnilega eins og jólasteikin (tilvitnun í Pál Óskar). Þú veist svona nokkurn veginn að hverju þú gengur. Þig langar að prufa eitthvað annað, en þorir ekki því það gæti verið verra á bragðið. Svo þú kaupir Bubba, jafnvel þó hann fái slaka dóma og nýja Sigur-Rósarplatan sé kölluð meistarastykki. Þú verslar steikina í Hagkaup þó hún sé ódýrari í Bónus. Það er svo þröngt í Bónus og draslaralegt. Og ef jólasteikin svíkur þig eitt árið; er einfaldlega bara vond og skemmir fyrir þér aðfangadagskvöld - þá ertu strax búinn að gleyma því um áramótin.

Í Svíþjóð er í raun hægt að lifa af á lúsalaunum. Við fáum að reyna það hér með okkar afar fátæklegu námslán frá Íslandi. Hér getum við keypt í matinn og fáum tvo fulla innkaupapoka af mat fyrir sama prís og hálfur kostar heima á Íslandi. Hér förum við á heilsugæsluna skítblönk, en það gerir ekkert til því það kostar ekkert. Tannlæknir er ókeypis fyrir börn undir 18 ára. Atvinnuleysisbætur eru talsvert hærri. Hér fáum við senda heim bækur um rétt okkar hjá sænsku tryggingastofnuninni þó við höfum ekki beðið um það. Maður þarf ekki að borga jafnmikið í strætó og í leigubíl. Hér eru engin skólagjöld - ekki í framhaldsskóla og ekki í háskóla. Eina sem þú þarft að borga í er skitinn 3000 ísl. í stúdentafélagið - stúdentafélagið sendir þér svo stúdentakort með svo rausnarlegum afsláttum að það borgar sig upp á mánuði. Við komumst til Köben fyrir 450 ísl. - sama og upp í Breiðholt og til baka. Hér er borin virðing fyrir þeim sem mennta sig með því að markmiði að þeir skili sínu í ríkiskassann að loknu námi.

Margt gæti farið betur í Svíþjóð - en það er samt betra en gamla góða Ísland í dag.
H.

10. maí 2003

KOSNINGAR

Kom heim í dag eftir sveitta tónleika og Ella var búin að plana dásemdar máltíð. Kúskús-grænmeti í ofni með sósu a la Tina. Tína er semsagt svona aðal sjónvarpskokkur Svía. Mjög gott skolað niður með dásemdar hvítvíni. Ágætis vani hjá okkur að hafa eina góða máltíð um helgi, spjalla og hafa það gott.

Og ekki að tilefnislausu. Það eru kosningar heima á Íslandi. Einhvern tímann sagði ég að ég kæmi ekki heim fyrr en Dabbi væri búinn að leggja kórónunni. Hann er sjálfur búinn að lýsa því yfir í þýsku tímariti að hann myndi hætta í pólítík fyrir sextugt, svo ég hef ekki miklar áhyggjur af því að taka upp sænsk ríkisfang. Vonandi gerist það í kvöld. Við skötuhjúin lögðum á okkur ferðalag með það eitt í huga að bola honum frá völdum, en miðað við nýjustu kannanir kann það að fara á versta veg. Jæja, enn og aftur væru Íslendingar að henda atkvæði sínu í sjóinn.

En maður verður að vera bjartsýnn, þó maður undirbúi sig undir hið versta......

Kv,
Halli

ELEKTRÓNÍSK HELGI Í MALMÖ

Er núna búinn að sækja nokkra konserta á hátíðinni Elektrisk Helg i Malmö. Raftónlist og lifandi flutningur í bland. Helgin byrjaði á því að ég tók á móti írska tónskáldinu og prófessornum Frank Corcoran, sem fulltrúi MHM. Yndislegur maður og skemmtilegur. Kannast við Alta Heimi. Allavegna semur hann alltílagi tónlist. Svo fór ég í dag á fyrirlestur og "Workshop" hjá hinum heimsþekkta víóluleikara Garth Knox. Góður fyrirlestur en illa mætt af kollegum mínum. Tók í spaðann á tónskáldinu Richard Karpan sem ber ábyrgð á "TimeStrech" forrituninni í CSound. Nokkuð gott og svolítill "I´m not worthy" fílíngur. Var samt ekki í stuði til að hanga á tónleikum frameftir degi í kvöld svo ég fór heim snemma. Tónleikar með Garth Knox á morgun, ansi spennandi.

3. maí 2003

HITT OG ÞETTA

Búið að vera gott og "slæmt" veður til skiptis undanfarna daga. Þegar ég segi slæmt er ég að tala um mikla rigningu og 14 stiga hita. Þegar ég segi gott er það sól og hæst 19 stig um daginn! Verðum vonandi brún og sælleg þegar við hittumst eftir tæpar þrjár vikur. Náði í hjólið hans pabba hjá Danna um páskana svo við erum komin með eitt stykki. Virkar fínt - var úti í góða veðrinu að gera það upp, setja lukt og dínamó og þrífa það.

Erum mjööööggg ofarlega á íbúðalistanum núna. Erum númer 1 og 2 á listanum eftir tveggja herbergja íbúð í Vildanden. Þriggja herbergja íbúðirnar eru fáar þessa stundina og við munum líklegast stökkva á fyrstu hugsanlegu íbúð sem gefst. Enda eru 50 fermetrar svosem nóg fyrir okkur og þá gesti sem detta inn. Vonandi dregur til tíðinda í næstu viku. Okkur hlakkar mjög til og erum þegar byrjuð að spá og spökulera. Þar sem pabbi benti okkur á að fjárfesta e-ð hér úti áður en við höldum heim verður líklegast e-ð keypt af húsgögnum og kannski örbylgjuofn ef við erum í stuði!

Ég held smá tölu um verkið mitt á þriðjudaginn. Það verður stuð! Daníel Bjarnason og Kjartan Ólafsson úr Tónó voru hér á miðvikudaginn var því DB er núna á túr með strengjasveitinni Musica Vitae sem fulltrúi Íslands. Ég spjallaði aðeins við þá, en þeir frekar þreyttir, enda búnir að vera á ferðalagi um Norðurlöndin - 5 konsertar á fjórum dögum.

Á verkalýðsdaginn fórum við í vettvangsferð til Málmeyjar til að kjósa. Kusum rétt. Er dálítið mál að kjósa svona utan Íslands - þurfum til dæmis að senda umslagið sjálf heim á Skerið. Héldum upp á það með því að fara til Kínakarlsins (Kínakarlinn rekur ódýrt og gott veitingahús við Konserthúsið í Malmö - förum þangað þegar okkur langar að "eyða" pening.

Ekki nóg með það. Þann 1.maí hélt kollegi minn í Músíkháskólanum, Stefan Klaverdal, útskriftartónleika. Við mættum í góðri trú. Konsertinn var í einni runu og tengdi hann verkin saman með raftónlist. 5 stykki á dagskránni og öll sólóstykki fyrir hljóðfæri og elektróník. Hmmm. Ekki þótti okkur mikið til koma. Stefán er ágætur kórlagasmiður og flinkur í elektróníkinni en gersneyddur tímaskyni. Til að mynda fór sólóstykkið hans fyrir fiðlu og elektróník svo vel af stað að ég hélt að hér væri snillingur á ferð. Mjúkur kontrast og miðaldarlegur hljómagangur. En nei. Alltíeinu brast á með brjálæðri dramatík á svo rómantískum nótum að Hugo sjálfur Wolf snérist um í gröfinni. Kristalhljóð í hátölurunum og gargandi hjakk í fiðlunni. Og svo gekk þetta nokkra hringi - eða í ca. 25 mínútur. Engin uppbygging. Bara repeat. Ella og ég vorum orðin sótsvört af reiði yfir þessari smekkleysu. Stefán er ágætur en ef ég hefði verið prófdómari hefði ég sent hann heim með skottið á milli lappanna. Alls var konsertinn ca. 1 og hálfur tími. Án hlés. Ekki bætti úr skák að Caroli kyrkja, þar sem konsertinn var haldinn, er með verstu setbekki á Skáni.

Ræktin er ennþá fastur liður. Erum samt ekkert að léttast að ráði þó vissulega sjáist á okkur - ég t.a.m. talsvert mjórri í framan og Ella slankari um mittið. Kannski pumpum við of mikið? Mataræðið betra og kókið næstum búið að vera hjá mér - hafragrautur á virkum dögum og Havre Fras um helgar. Gott mál.

Nú tekur við mikil dagskrá hjá mér. Á miðvikudaginn förum við á útskriftartónleika Snorra Heimis, en hann er að klára fagottið í Köben. Helgina næstu er svo raftónlistarhelgi í Malmö og ég á að vera viðstaddur alla konserta. Vikuna eftir eru svo æfingar í Helsingborg. Ætla að reyna að koma með upptöku heim. Er þegar með strengjastykkið síðan í vetur og líka Atonal-stykkið sem fór fyrir brjóstið á öllum.

Jæja, segjum þetta gott í bili!

Halli

2. maí 2003

MYNDIR

Já, nú ætla ég að setja inn myndaalbúm á síðuna okkar!!!! Þið klikkið á linkinn og þá opnast nýr gluggi - þar getið þið skoðað myndaalbúmið! Gefið mér smá séns á að hlaða inn myndir en nú eru a.m.k. 5 myndir.....

Enjoy!

Halli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?