29. mars 2003
ÞRIF
Jæja, tókum á honum stóra okkar í dag, löguðum til og skúruðum og skrúbbuðum pleisið. Gott veður í dag að vanda - virðist ætla að verða ansi gott vor. Hef slugsað það dálítið að skrifa út raddir en það lagast víst allt í næstu viku.
Nágranninn á efri hæðinni er á útopnu þessa stundina. Spilar tónlist svo hátt að við getum sungið með. Og af hverju getum við sungið með? Jú, því hann er alltaf að spila sama lagið. Svo syngur hann í sturtu. Hann fer í sturtu klukkan 2 á nóttinni. Svo færir hann húsgögn eftir 12 á miðnætti. Undarlegur nágranni, þessi gaur sem við köllum portúgalann...
Kv,
Halli
22. mars 2003
STRÍÐ
Bara til að undirstrika okkar skoðun á þessum óskunda fyrir sunnan. Hér er brandari sem segir allt sem segja þarf:
Fréttamaður: Hvernig vitiði fyrir víst að Saddam eigi gereyðingarvopn?
Bush: Jú, sjáðu til, ég geymdi kvittanirnar...
RÆKTIN
Förum mikið í ræktina núorðið við skötuhjúin. T.a.m. klukkan 18 á föstudagskvöldi. Hljómar ekki eins og við, en létum samt verða af því. Förum líka á sunnudögum. Þetta hljómar eins og við eigum okkur ekki líf, en þetta er nú bara svo gott. Þrisvar til fjórum sinnum í viku og af með Spiku.
Ræktin er risastór bygging sem kallast Victoriastadion. Hún skiptist í tvennt. Annarsvegar, hægra megin, er þar AFL þarsem fólk getur stundað veggtennis og badminton. Hinsvegar, vinstra megin í byggingunni, er LUGI. Þar fer fólk í fótbolta, körfu, bandý og fl. Þar mitt á milli er lítið svæði og þar lyftum við lóðum og rembumst á þrekstigunum. Fín og vond tónlist í bland. Tildæmis AC/DC og Scooter. Nokkrir harðjaxlar hópa sig saman út í horni og öskra á hvern annan á meðan þeir ætla að springa af áreynslu við að lyfta hundruðum kílóa upp í loftið. Annars er mikið að venjulegu fólki eins og okkur. Og fólki sem girðir sig upp á bringu, fólki sem mætir í skræpóttu spandexi og fólki sem mætir með húfu.
Svíar sem fara í ræktina fara aldrei í sturtu á staðnum. Þess í stað mæta þeir í leikfimifötunum innanundir og þegar þeir hafa svitnað í hálftíma fara þeir í yfirhafnir og beint heim. Langflestir ræktarsvíar gera þetta og þetta þykir okkur Ellu slísí. Þess í stað förum við í sturtu á staðnum eins og hreinlátu fólki ber að gera. Sturturnar eru kannski ekkert til að hrópa húrra yfir en, jú, það kemur vatn úr þeim og það er heitt. Vonum bara að blessaðir svíarnir fari þá í sturtu heima. Á þeirra kostnað....
19. mars 2003
DAGURINN FYRIR STRÍÐIÐ
...virðist byrja eins og hver annar dagur. Það er: kaffi, hafragrautur og mogginn í rafrænu formi. Eyddi morgninum í það að læra hvernig á að gera hitt og þetta við þessa síðu. Samt ekki hægt að setja upp myndir - böggandi - en verður að hafa það.
Dag einn ætla ég að kunna að HTML-a (heimasíðu - forritunarmál, oft kallað hátíðarmella). Það kostar samt tíma sem ég hef ekki haft að undanförnu. Vona að það lagist núna með vorinu. Þá gæti maður gert eitthvað flottara og innihaldsríkara en að þvaðra hér um daginn og veginn.
Er að fara til Malmö á nýjan leik að vinna frekar í strengjaröddunum fyrir Bylturnar sjö. Svíarnir verða að láta enska titilinn duga: Seven Songs of the Insomniac...
Jæja, nóg í bili
H.
18. mars 2003
KVIKMYNDATÓNLIST
Já, svo sannarlega langur dagur á enda runninn. Sólin skein og vor í lofti, ca. 10-12 gráður og góður fílingur. Ég sat þó inni í öllum þessum hita og horfði á myndskeið sem innihéldu mikið af magnaðri músík. Gaman á þessum ágæta fyrirlestri Peter Bryngelsson, að því frátöldu þegar ég átti að tjá mig um gildi sænskrar kvikmyndartónlistar. Hmmm, ja det ar det.... Komst að því að ég er svona soldið post-módernískt þenkjandi samkvæmt skilgreiningu Peters á fyrirbrigðinu. Hef aldrei algjörlega áttað mig á hugtakinu og ekki seinna vænna því nú er inn að vera póst-póstmódernískt þenkjandi. Þetta er bara eins og í gemsabransanum. Maður er bara úreltur um leið og maður uppfærir símann.
Gleymdi að segja frá því að í gær hitti ég á göngum MHM -Malmö Musikhögskola- fimm hressa Íslendinga. Þetta voru Matti, Ásgeir og fleiri frá FÍH í vettvangsferð. Náði að kasta á þá kveðju en ekki mikið meira þar sem þeir voru á hlaupum í fullu prógrammi.
Annars eru það bara fréttir, stríð í Írak, hakk og spaghettí.....
Halli
17. mars 2003
LÁNGUR TÍMI, ENGINN SJÓR
Er búinn að vera ósköp óduglegur við að blogga undanfarið. Þetta stafar aðallega af leti, en einnig hefur maður verið að skrifa út raddir fyrir Bylturnar sjö. Er síðan óvanur að viðra skoðanir og einkalíf á netinu, eins og kollegar mínir í Árósum og Gautaborg. Verð að fara að taka mig á. Kannski verður þetta að bók. Maður verður nú að huxa dálítið stórt, er það ekki?
Fórum til Íslands í spreng og var bara gaman. Ég spilaði rokk á Akureyri með Dauðahafseplunum. Vel mætt en við svoldið gamlir og styrðir. Var samt eins og við hefðum æft í gær. Aðallega líkamsrækt sem vantaði. Á meðan datt Ella íða með vinkonunum og það hressilega. Var skelþunn á laugardeginum. Flugum síðan með hinu ágæta Iceland Express til baka. Ekki mikið gerst síðan þá, nema hvað Ella fékk hálsbólgu og lá í bælinu í nokkra daga. Ég lá í tölvunni að mata út raddir. Endalaus helv**** vinna.
Í dag og á morgun er ég á kvikmyndatónlistarnámskeiði. Bara gaman. Horfðum fullt á Dallas í dag og greindum tónlistina sem fór úr e-moll í B-moll í hvert skipti sem einhver kom út úr skápnum sem vondi karlinn. JR hress að vanda. Strengjaraddirnar þurfa að fara í prent á morgun svo þær náist fyrir helgi. Held samt að ég sé sá stressaðasti í bekknum - hinir varla búnir með partítúrinn. Eftirgjöfinn í sænska skólakerfinu er svo sannarlega til skammar. Annað en heraginn heima.....
Hallelúja,
Halli
1. mars 2003
Nú fara Svíadruslurnar að telja í þriðju undankeppni Söngvakeppninnar. Talandi um að við Íslendingar séum júróvisjón-sjúklingar! Lögin hafa verið svona lala en þó gullkorn inn á milli. Kynnir er finnskur hommi og með honum gamlar júróvisjón stjörnur. Mikið er til lagt í keppnina og gaman að horfa, sérstaklega á tónskáldin sem yfirleitt eru uppgjafarokkarar með sítt að aftan, fallnir frá trúnni á hið harða rokk og farnir að poppa allverulega...