<$BlogRSDUrl$>

28. febrúar 2003

Nú nálgast helgin og kominn fiðringur í liðið þar sem við höldum heim til Íslands miðvikudaginn nk. í 5 daga stopp. Þar skiptum við liði og ég verð fyrir norðan á meðan Ella herjar á vinahópinn sinn í Reykjavík. Einnig verður reynt að redda sér vinnu gegnum þau íslensku mafíusambönd sem við höfum aflað okkur í gegnum tíðina. Tíminn verður naumur og líklegast verður beðið með svefn þartil við komum aftur til baka.

Þessa helgi verður ekki mikið gert. Erum að stinga af í ræktina og ætlum svo að glápa á imbann út í eitt. Eitthvað verður þó lært þar sem dedlænin nálgast óðum á hljómsveitarverkinu mín, Sjö byltur svefnleysingjans. Það verður stuð að ganga frá því en skilafrestur rennur út þann 15.mars. Nú vona ég að Svíar hafi smekk fyrir góðu sinfóníurokki. Ella er að bardúsast í heimaprófi og þarf líklegast að lyfta penna um helgina, því miður. Mánaðarmótin koma sem betur fer svo við höfum efni á hakkpakka og núðlum...

26. febrúar 2003

Jæja, meira af skrifum okkar - það vantar reyndar einn pistil hér og lýsum við því eftir honum hérmeð - þangað til förum við til baka í tímann og rifjum upp ferðalag dauðans sem átti sér stað sunnudaginn 5.janúar sl...

FERÐALAG DAUÐANS
Ritað af Haraldi Þynnkubana

Dagurinn hófst upp úr 12 á hádegi. Heilsa Haraldar var með öllu fjarverandi fyrstu 6 klukkutímana þar sem partýið kvöldið áður hafði verið allsvakalegt. Maginn aumkaði sér og vildi ekkert með eigandann hafa. Elín var þó skömminni skárri enda bindindiskona. (Hmmm...) Allavegna, héldum við á stað í mikilli ógleði, bæði vegna þess að nú stóð til að yfirgefa okkar nánustu á nýjan leik og jú, vegna hins. Gestur keyrði eins og vindurinn áfram Reykjanesbraut enda atvinnubílstjóri. Ég var Fölur og fár og átti erfitt með mál en Elín í góðu formi og blaðraði um daginn og veginn við Oddnýju og Gest.

Þegar á flugvöllinn kom beið okkar myndarleg röð fram að dyrum - gekk þó frekar fljótt fyrir sig að skrá sig inn hjá sveittum "ekki-svo-skælbrosandi-lengur" Flugleiða-kerlingunum. Tollverðir létu okkur með öllu vera enda ólíklegt að hér væru á ferð fálkaþjófar. Þegar svo sest var niður til hvíldar á Flugstöð Leifs uppgötvaðist að ég hafði gleymt bíllyklinum að bíl föður míns í vasanum á frakkanum. Kaldur sviti spratt á ennum og hringt í famelí - nænvonvon í Kópavoginum, múttu. Hún á sko ráð undir rifi hverju. Ég stökk niður í gegnum málmleitartækið og náði tali af öllu líflegri Icelandair-konu sem lofaði að koma lyklinum til skila, enda átti hún heima í bænum. Málið leyst og við settumst niður á nýjan leik með jógúrt og héldum að okkar ófarir væru á enda þennan dag. Okkur skjátlaðist hrapallega...

Settumst inn í flugvél ca. 17.20 (áttum að leggja af stað skv. miðanum 16.45) og biðum þolinmóð eftir að flugstjóranum þóknaðist að ræsa relluna en það tók 20 mínútur enda troðfull vél af úttroðnum Íslendingum erlendis. Haldið var til Noregs og lýsti flugstjórinn frekar sjálfumglaður hve gott veður væri á leiðinni og að við yrðum lent í Noregi í -20 gráðum eftir 2 tíma og 20 mínútur. Honum fannst greinilega gaman að tala í radíóið enda bauð hann upp á sína bestu flugstjórarödd. Köld kjúklingabringa á boðstólnum og kók fyrir óstabíla gerðu kraftaverk fyrir þynnkuna, og útlit fyrir ánægjulegri ferð. Við skötuhjúin veltum fyrir okkur hvort við myndum ná síðasta strætó í Lundi en hann færi ca. tíu mínútur í miðnætti.

Flugstjórinn hafði rétt fyrir sér með Noregstúrinn - við lentum 21.15 á staðartíma. Aftur heyrðist í flugstjóranum þar sem hann tilkynnti að við Kastrupfarar myndum dvelja inn í vélinni í 30 mínútur á meðan Norsararnir yfirgáfu svæðið frelsinu fegnir. Hálftíminn leið frekar hægt - sérstaklega eftir hálftíma þegar margumræddur flugstjóri opnaði fyrir radíóið enn á ný og sagði vandræðalegur frá vandamálum á Kastrup-flugvelli og að það væri alltaf verið að opna og loka flugbrautum. Hann sagðist ætla að láta okkur vita hvernig staðan væri eftir 10 mínútur. Eftir annan hálftíma var hann mættur enn á ný - flugstjórinn - öllu hressari en alltof seinn og sagðist ætla að flögra með okkur á 45 mínútum til Kastrup. Allir í vélinni önduðu léttar enda ekki málið að dvelja öllu lengur í skítakulda í Noregi, jafnvel þó við værum inn í vélinni.

Það voru ágætisskilyrði á leiðinni frá Osló til Danmerkur - sáum meðal annars niður á Gautaborg. Síðan ekkert. 45 mínútur voru liðnar og mér leið eins og í hringekju - spurði Ellu hvort við værum ekki sífellt að hækka og lækka flugið. Og hvað svo? Jú, flugstjórinn útvarpaði sínu reglulega ávarpi til farþega. Núna heyrðist hvað hann var rauður í framan þegar hann tilkynnti skömmustulega að ekki væri hægt að lenda á Kastrup, verið væri að ryðja brautirnar og möguleiki að við myndum á endanum lenda í Billund eða í Osló. Stór stuna færðist yfir dolluna. Klukkan orðin 12 á miðnætti og við búin að missa af strætó í Lundi. Þess í stað bauð flugstjórinn og menn hans upp á útsýnisflug yfir skýjabreiðuna sem huldi Sjáland í 1 klukkutíma og 25 mínútur. Ella var komin með hausverk af öllu hringlinu og flugfreyjurnar löngu hættar að rukka fyrir vínið.

Allt í einu skellti vélin sér ofan í skýjabreiðuna og eftir mikið hoss lentum við á Kastrup-flugvelli. Allir klöppuðu og brostu í kampinn, sögðu þetta sögu til að segja frá í gríni síðar. En lítið vissu farþegarnir um að öll landgönguhlið í flugstöðinni væru upptekin. Ekki fyrr en radíóþáttur flugstjórans hófst. Spariröddin löngu farin og egóið fótum troðið. Aldrei höfðum við séð nokkuð þessu líkt. Flugvélarnar voru í biðröð upp að flugstöðinni og minni vélar á víð og dreif um svæðið. Kl. 02.00, ca. 40 mínútum eftir að við lentum var vélinni lagt og fólk gat streymt út. Okkur langaði til að taka í höndina á flugstjóranum, en hann fór ekki á stjá fyrr en hann var viss um að allir væru farnir. Við gengum fram hjá endalausum röðum af fólki sem beið eftir upplýsingum um tengiflug eða bara eitthvert flug og allstaðar lágu dauðuppgefnir ferðalangar með dauflegan vonarneista í augum. Við skriðum þreytulega niður í biðsal og vonuðum að töskurnar yrðu fljótar á leiðinni. Hehehe...

Hjá farangursbrautunum lágu töskur útum hvippinn og hvappinn ásamt rauðeygðu eða sofandi fólki. Við settumst á gólfið upp við vegg og vonuðumst til að ná 2.33 lestinni til Malmö. En ekkert gerðist. Við horfðum upp á fólk vaða inn og út í gegnum tollarahliðin enda engir tollarar þar. Hugsuðum með okkur að þarna gæti fólk komið og náð sér í töskur ef það langaði - jafnvel komið fyrir sprengjum í góðum gír enda ósköp lítið um vallarstarfsfólk eða öryggisgæslu á svæðinu. Meðan við biðum eftir töskunum urðum við að sætta okkur við vatnssopa enda ekkert um opna veitingastaði eða nammisölur. Hangsið eftir töskunum tók rúma eina og hálfa klukkustund og vorum við dauðfegin að eiga bara eina tösku! Nú áttum við bara eftir að koma okkur í lest yfir landamærin.

Annar sjálfsalinn sem seldi farmiða í lestina var bilaður. Því þurfti að fara í röð eftir miða. Þar hitti ég á Arnald Grétarsson, en hann hafði lagt af stað frá Íslandi kl.15 á staðartíma og þurft að lenda í Billund. Sú vél lenti í Kastrup ca. 45 mínútum Á EFTIR okkur. Arnaldur vinnur nú á Kastrup og nennti því ekki að bíða eftir töskunum sínum - skiljanlega. Við skötuhjúin settumst eftir að hafa lent í veseni með miðavélina, og biðum þolinmóð eftir að fá að setjast inn í hlýja lestina sem átti að fara kl. 4.33. En getið hvað. Vegna veðurs í Danmörku tafðist lestin til 5.15. Þolinmæðin var orðin lítil en þreytan þó meiri og því ekki erfiðisins virði að fara að ergja sig. Spjölluðum við fólk í lestinni sem sagðist hafa verið á ferðinni frá því á sunnudagsmorgun! Að sjálfsögðu þurftum við að skipta um lest í Malmö og fórum með þeirri til Lundar. Biðum svo þar eftir fyrsta strætó sem fór 6.24 og stóðum á Kämnarsvägen kl. 6.50 - þá átti eftir að drösla töskunni í gegnum snjóþyngslin að íbúðinni okkar. Allt var á sínum stað heima og var því ekkert því til fyrirstöðu að leggjast strax undir sæng.

Þegar þetta er skrifað er enn óregla á svefnvenjunum og við óvenju þreytt. Þetta ferðalag sem venjulega´ætti að taka ca. 5 tíma lengdist um 11 tíma! Kastrup-vitleysan þykir skömm fyrir Dani og voru menn ómyrkir í máli þegar þetta var í fréttunum á mánudagskveldið. Fyrirbærið ku hafa nafn - Síberíuveturinn, þar sem blæs köldu lofti úr austri yfir Skandinavíu. Næst förum við með fallhlífar...

Hér á eftir koma nokkrir pistlanna sem við höfum sent okkar nánustu. Þeir fjalla um það sem fyrir augu okkar hefur borið hér í Lundi...

3.11.2002

SJÓNVARP

Svíar eru mikið fyrir það að glápa. Sérstaklega finnst þeim skemmtilegt að sjá keppnis- og/eða leikjaþætti ýmiskonar, enda nóg til af þeim. Jeopardy og Viltu vinna milljón? eru spurningaleikir sem njóta mikilla vinsælda, svo og allskonar þættir þar sem þrautir eru leystar með hugarleikfimi svo og líkamsfimi. Einnig getur maður horft daglega á "raunveruleika"-sjónvarpsþætti. Þó eru þeir þættir næstum allir innlend framleiðsla þar sem fyrirmyndirnar koma frá okkar ástkæru könum. Í þættinum Farmen er hópur fólks skilinn eftir í bóndabæ einum og þar eiga þau að plumma sig í þrjá mánuði við að mjólka og moka út skít. Svo er einn kosinn út í viku hverri eftir mjög flóknum reglum sem ekki verða raktar hér. Einnig eru tvær gerðir af þáttum þar sem reynt er að finna hina fullkomnu poppstjörnu. Í þáttunum Fame Factory og Popstars fá venjulegar manneskjur tækifæri til að verða landsfrægar poppstjörnur. Þar er fólk kosið út í vikulegum lokakeppnum og er oft mikið drama í kringum það. Í gær var Evróvisjón-þema í Fame Factory og þar tók einn keppendanna hið alíslenska Tell Me og var næstum kosinn í burtu fyrir vikið.

Hápunktur sjónvarpsvikunnar í augum Svía er þó Bingo Lotto. Á hverju laugardagskvöldi kl.19.00 á að vera búið að borða og þá sest fjölskyldan með popp og djús fyrir framan imbann og horfir á sköllótta manninn í Bingo Lotto hósta upp vinningum eins og hann fái borgað fyrir það (sem hann gerir líklegast). Enginn fer út á lífið fyrr en eftir níu, en þá er þátturinn á enda. Reglurnar eru svipaðar og í bingó en eitthvað blandast lottó inn í þetta (ekki spyrja okkur, við horfum bara á þetta tómum augum). Ekki er óalgengt að heimsfrægar stjörnur komi fram í þáttunum, nú síðast Phil Collins. Collins gamli ruggaði sér kauðslegur þar sem hann stóð einn á sviði í sjónvarpssalnum, líkt og hann væri að troða upp á bingókvöldi í Tónabíói. Ekki þó til einskins því Bingo Lotto er með allramesta áhorfið í Svíþjóð af öllum sjónvarpsþáttum. Við skötuhjúin höfum tileinkað okkur eitthvað af þessum ágætu þáttum, en höldum okkur þó mest við gamla kunningja - eins og Simpsons og Cityakuten (Bráðavaktin)....

REIKNINGAR

Eitt af leiðinlegri hlutum sem maður tekur upp á hér í Lundi er að borga reikninga. Líkt og heima þarf maður að standa í þessu mánaðarlega. Hinsvegar vill það brenna við að reikningar eigi að greiðast á tveggja mánaða fresti sem flækir málin enn frekar. T.d. er síma- og rafmagnsreikningar borgaðir sitt á hvað. Öllu verra eru þjónustugjöldin sem lögð eru á reikningana við greiðslu í Kassaservice (einskonar freelance-gjaldkerar). Þar borgum við meðaljónarnir okkar reikninga með hreina samvisku en er refsað grimmilega fyrir vikið. T.a.m. þurftum við um þessi mánaðarmót að borga þrjá reikninga í Kassaservice, þar af einn reikning upp á heilar 60 sænskar krónur. Jú, allt gott og blessað og á gjalddaga. En af þessum 60 króna reikning þurftum við að greiða aukreitis 45 krónur í þjónustugjöld. Alls af þessum þremur reikningum þurftum við að greiða 150 krónur sænskar í þjónustugjöld, eða um 1500 krónur. Þessi staðreynd lætur Búnaðarbankann líta út eins og Bústaðarkirkju og séra Pálmi er bankastjóri. Rússneska kerfið er víða vinsælt viðmót í þessu annars ágæta landi...

STRÆTÓ OG LESTIR

Almenningssamgöngur eru hátíð hér miðað við heima. Lundabúar og aðrir eru duglegir að notfæra sér þá þjónustu sem er veitt. Við borgum um 750 sænskar krónur fyrir að geta ferðast óheft í strætó og lestum. Ég (Halli) þarf þó að borga talsvert meira fyrir minn enda fer ég reglulega til Málmhauga eða Málmeyjar (einhver hvíslaði því að mér að þetta væri rangheiti þar sem Malmö er sko engin eyja - Málmhaugar skal það vera). Þetta er fljótt að borga sig upp þó það virðist há upphæð. Strætóbílstjórarnir eru oftast innflytjendur þó maður sjái t.d. fleiri kvenbílstjóra en heima. Við höldum okkur við Fjarkann líkt og heima, en sá vagn stoppar rétt fyrir ofan Kämnarsvägen. Gallinn við fjarkann er hinsvegar sá að oft er hann svo þéttsetinn að bílstjórarnir sleppa stoppistöðvum. Þetta hefur hríðversnað síðan við komum hér fyrst. Ekki bara það að hann er eini strætóinn sem fer hingað á þessa þéttsetnu stúdentagarða, heldur er Fjarkinn er nú eini strætóinn sem keyrir fram hjá nýopnaðri "kringlu", Nova Lund. Við bíðum ennþá eftir því að Lund fjárfesti í harmonikku-Fjarka handa okkur stúdentum svo við eigum það ekki á hættu að vera skildir eftir í kuldanum.

Lestirnar eru ágætar til síns brúks en eiga það til að tefjast eða falla niður. Sérstaklega á þetta við Eyrarsundslestirnar, en þetta hefur verið viðloðandi vandamál síðan brúin var opnuð. Betra er fyrir mig að stóla á millibæjarútuna 171, sem ferjar mig úr mínu hverfi niður í miðbæ Málmhauga. Þessi rúntur tekur um 30-40 mínútur og er langt um hentugri ferðamáti en lestirnar. Ella tekur Fjarkann í skólann og er um tíu mínútur á leiðinni.

Næsta skref verður að redda okkur hjólum. Hjól eru "lífsnauðsynleg" hér á Skáni og margir sem trúa okkur ekki þegar við segjumst ekki eiga hjól. Að eiga hjól gæti sparað okkur eitthvað af þessum 750 kalli sem við eyðum í almenningssamgöngur. Það auðveldar líka allar ferðir hér í nágrenninu og niður í bæ, enda er vel gert við hjólreiðamenn hér í bæ sem og annarsstaðar á Skáni. Oftar en ekki eru lagðir hjólastígar en engir göngustígar, svo þessar örfáu hræður sem ferðast á fæti geta bara dröslast í vegkantinum!

25. febrúar 2003

Jæja, það hlaut að koma að því að tölvunjörðurinn Haraldur Sveinbjörnsson tæki upp á svona bulli - eða bloggi....gjörsamlega í óþökk unnustunnar. Eftirleiðis má gera ráð fyrir því að hugleiðingar okkar um lífið og tilveruna birtist óreglulega hér á vefnum, a.m.k. meðan við klárum þetta blessaða nám okkar hér í Lundi í Svíþjóð. Þangað til - bíðið spennt...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?