<$BlogRSDUrl$>

29. nóvember 2004

MÁNUDAGUR

Helgin búin og vinnuvika framundan. Reyndar tiltölulega róleg hjá mér. Ber helst til tíðinda að ég spilaði með dúettinum Vegagerðinni (þ.e.a.s. ég og Sváfnir Sigurðarson trúbadúr) á Café Catalínu í Hamraborginni. Café Catalína er allsekki óhuggulegur staður, en á sér súra sögu þar sem forveri kaffihússins var rónapöbb Kópavogs. Óendanlega súrt lið þarna á föstudagskvöldinu og allir vel í glasi. Á laugardeginum var svo hálfgert ættarmót Sveinbjörnssonar, og það sem betur fer því annars hefði verið tómt. Annars fínt þannig séð, gaman að spila með Sváfni sem er helvíti góður...

Jæja, nú verður haldið í hádegismat.

Síðar,
Halli

22. nóvember 2004

KARLAKVÖLD

Fór með mínum ágætu skólafélögum úr gaggó (Þinghólsskóla) út að borða á laugardagskvöldið í tilefni þess að við erum eldri. Fórum á jólahlaðborð Hereford-steikhússins við Laugarveg. Aldeilis veisla, kjöttegundir á hverju strái ef frá er talið katta- og krókódílakjöt sem fæst bara á Svartakaffi. Við borðuðum svo yfir okkur að drykkjan sem átti að fylgja á eftir varð hálfdaufleg, enda flestir enn á meltunni eftir miðnætti. Samt ákaflega skemmtilegt - sumir eru orðnir ryðgaðir í djamminu (utan við undirritaðan og nokkra aðra ónefnda). Þetta verður sumsé haldið framvegis á sex mánaða fresti.

Annars tók ég þátt í The Wall m. Dúndurfréttum sl. mánudag sem sjötti bítillinn eins og Pétur Örn Guðmundsson orðar það. Var svona píanó/kassagítar-aukamaður. Það var geggjað stuð, enda eldklárir strákar. Aldrei að vita nema maður troði upp með þeim síðar (í það minnsta vona ég það svo sannarlega). Skilst að síðasti Dúndurfréttaflutningur á The Wall í Borgarleikhúsinu júní 2002 hafi lekið á netið. Roger Waters snýr sér líklegast í gröfunni við þessi ógnvænlegu tíðindi sem gæti þýtt minnkandi plötusölu upphaflega meistaraverksins.

Síðast en ekki síst. Sá Kiss troða upp á Gauknum á föstudagskveldið. Þeir voru vel þéttir, bæði í útliti og spilamennsku og höfðu viðstaddir mikið gaman að enda voru málningarsletturnar upp um allar kinnar liðsmanna. Hefði viljað heyra Tears are Falling, en ég held að það sé bara gott lag í minningunni.

Elín, heitkona mín og tryggingarfulltrúi, er orðin eldklár í málefnum Tryggingarstofnunar. Leyfi henni að tjá sig um það.

Svo var Harry Belafonte hér að "skemmta" landanum. Það er eins og við manninn mælt - hann er lagður í einelti svo hann syngi nú de-oh (sjá færslu Villa Goða um atvikið). Ekki er Magnús Scheving stoppaður á götum úti og beðinn um að syngja "mig langar í eina Pepsi, úúúúú dósagos" eða "já, ég er ííííííííííííííþróttahálfvitinn". Illa farið með afa gamla. Hringið frekar í Ladda. Deó. Deó. Baulaðu Búkolla ef þú heyrir.

Nóg í bili - auf wiedersehen,
Halli Belafonte

4. nóvember 2004

Af tónlistarmönnum

Sælt veri fólkið! Svo langt síðan ég hef bloggað að ég þurfti að blaða í íslenzkri orðabók til að geta byrjað á nýjan leik.

Ísland, gamla Ísland. Kjallarinn í Skipholti 16 er nú aldeilis fínt staðsettur fyrir miðbæjarrottur eins og okkur. Ég hef tekið upp á því að kenna þreyttum gagnfræðingum tölvutónlist í 30% stöðu í Kópavogi. Síðan er ég að taka upp hitt og þetta í stúdíó September og tölvusetja fyrir Íslenzka Tónverkamiðstöð - hef svo sannarlega verið húsbóndi heimilisins á meðan frúin leitar sér að vinnu. Þó það hljómi ótrúlega þá hefur fátækur tónlistarmaðurinn náð að halda okkur uppi í rúma tvo mánuði. Svona er það bara.

Ekki laust við að stundum dúkki upp saknaðartilfinning og hugurinn leiti til Svíþjóðar. Vona að allir þar hafi það sem best. En svo er nú svo gott að búa á Íslandi, landi verðsamráðs, forsetahaturs, einokunar og eyðsluseggja.

Kveðja í bili,
Halli

2. nóvember 2004

Atvinnuleysi og heimilisstörf...

Ég er eins og flestum er kunnt atvinnulaus. Ég hef verið atvinnulaus núna í tvo mánuði. Þetta er lengsta frí sem ég hef verið í síðan í sumarfríinu í tólf ára bekk (áður en maður fór að vinna á sumrin). Annars er þetta lítið frí, það er hevý djobb að vera atvinnulaus. Maður þarf að fara á griljón staði, ná í hina og þessa pappíra og svona. Svo er maður líka búin að sækja um gríljón störf, ekki mikið að gera fyrir unga konu með masterspróf. Ég læt þetta ekkert á mig fá og hef snúið mér að því að vera húsmóðir. Í morgun er ég búin að mæta í atvinnuviðtal. Skipta á rúminu, vaska upp, þvo tvær vélar, straua og ryksuga...vá maður þetta er rosalegt. Annars er maður ágætlega upptekin við að gera ekkert. Hjálpa mömmu að læra. Hanga á netinu og heimsækja atvinnuleysinga og fólk í fæðingarorlofi. Ef þetta væri betur borgað væri maður jafnvel að nenna því að standa í þessu. Er eins og er ég með 40 þúsund í bætur á mánuði þannig að Chanel dragtin og Rolsin verða að bíða betri tíma. Ef einhver lesenda bloggsins veit um eitthvað jobb þá mega þeir endilega vera í bandi.

Lag dagsins er heartbeats með José Gonzales algjör snilld...ryksugan á fullu á líka vel við miðað við stemmingu dagsins.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?