<$BlogRSDUrl$>

24. september 2003

HLÍNARINN Á EYRARSUNDSSVÆÐINU

Jú, það er rétt, mín ástkæra systir er flutt búferlum til Wonderful Copenhagen og ætlar að klippa Dani næstu 9 vikurnar eða svo. Hún gladdi okkur með því að mæta galvösk í heimsókn á föstudaginn var. Það var mikið jammað þá helgi - fórum í okkar fyrsta Íslendingapartý með vinkonum Ellu úr skólanum. Partýið héldu Egill og Dagný en hann lærir hagfræði og hún stjórnmálafræði. Einnig voru þarna aðrir góðir gestir, þ.á.m. Stjáni úr Iðnnemasambandinu. Ekki spillti fyrir að menningarnótt Lundabúa var þetta sama kvöld og dásemdarveður.

Hins vegar var veðrið ekki svo gott á sunnudaginn, rok og rigning og þrumur. Hrefna fór heim seint og um síðir á sunnudagskvöldið eftir að við vorum búin að tjilla allan daginn.

Svo er von á henni næsta föstudag. Nema hvað. Meira um það síðar.

Kv,
Halli

23. september 2003

LOKAÐ Á KLÁMHUNDINN!

Varð fyrir því óskemmtilega atviki í síðustu viku að vera kastað af skólanetinu. Vissum ekkert hvað hafði gerst þar til á miðvikudag (gerðist á mán.) og þá var mér sagt að tölvan mín væri miðstöð sóðapósts. Kom upp úr dúrnum að einhver tölvunjörður og hakkari hafði brotist inn í tölvuna mína meðan við vorum á netinu og laumað "ruslpósts-dreifi-forriti "inn í tölvuna mína eða Ellu-tölvu. Þurftum að setja upp Windows upp á nýtt í báðum tölvum! Allavegna, þurfti að setja upp svokallaðan "eldvegg": Forrit sem ver tölvuna mína frá hökkurum. Komst aftur í samband á föstudaginn. þá getur maður haldið áfram að fíflast á netinu í stað þess að læra.....jibbí....

H.

VEI!

Spurningamerkin hafa hérmeð verið gerð útlæg af þessari síðu og skulu ei meir angra oss. Eða?

H.

9. september 2003

HVAR HÖFUM VIÐ EIGINLEGA VERIÐ?

Hmm, jú, sumarið kom og allir fóru út að leika. Reyndar hefur þetta sumar verið með þeim betri sem mig rámar í. Við skötuhjúin fengum bæði dásamlega vinnu sem við gátum tekið með heim í kotið. Ella vann notendakönnun fyrir Þjóðarbókhlöðuna og ég fékk að setja handskrifað handrit Jóns Leifs yfir í tölvutækt form. Byrjuðum á Íslandi í mánuð og héngum svo hér í Sverige og nutum þess að geta farið á ströndina eftir vinnu eða skoðað mannlífið í 20 - 25 stiga hita. Mútta kom svo hér í byrjun ágúst og áttum við tvær frábærar vikur saman þar sem við ferðuðumst um allan Skán og til Gautaborgar. Tveimur dögum eftir að hún yfirgaf okkur kom svo litla syss ásamt Daða sínum og gistu þau í 4 nætur. Ofsalega gaman og mikið stuð!

Nú er haustið að ganga í garð og stemmningin að róast. Elluskóli byrjaði með trukki - hún komst að því að það eru alveg þrjár íslenskar stelpur í kynjafræði þetta árið, þaraf tvær á sama ári og hún. Þær skrifa sveittar fjórar síður á viku, plús að þurfa að byrja á lokaritgerð og lesa þykka doðranta í leiðinni. Á meðan hangi ég heima með Jóni og bíð eftir að herlegheitin hefjist í Malmö. Fyrsti tími er á fimmtudaginn og eitthvað er þetta síðan dreift. Sem er svosem alltí lagi því ég þarf að huga að Jóni - það voru svo margar pásur í ágúst að ég er aðeins á eftir. En þegar því er lokið á ég von á því að Jón heilsi upp á mig í svefni og þakki mér fyrir vel unnin störf. Þetta er jú menningarverðmæti sem ég fer höndum um hér!

Allavegna, okkur líður vel (fyrir utan smá blankheit eftir heiftarlega sumareyðslu) - komin í nýjan nemendaklúbb sem heitir Blekingske Nation. Þar eru víst fullt af Íslendingum. Ætlum að vinna aðeins í félagsmálunum þarmeð. Ég þarf víst að byrja að setja niður penna og semja einhver lifandis bísn af músik; þar á meðal nýtt verk fyrir Helsingborgarsinfóníuna. Verður stuð í vetur skal ég segja ykkur......

Bless í bili,
Halli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?